Danski hagfræðingurinn Lars Christensen segir að evran sé stórkostlegt hagfræðilegt, fjármálalegt, pólitískt og samfélagslegt klúður. Hann segir evruna vera ógeðslega og að sökin á henni liggi hjá embættis- og stjórnmálakerfi Evrópusamstarfsins, auk stjórnmálamanna í Evrópu og þeirra hagfræðinga sem hunsuðu hætturnar við evruna. Þetta kemur fram á bloggi hans .

Christensen byrjar pistil sinn á að spyrja lesendur hvernig þeir haldi að staðan í Evrópu væri ef Evruríkin hefðu ekki tekið upp sameiginlegan gjaldmiðil. Hann spyr hvort landsframleiðsla Grikklands hefði fallið um 30%, hvort Finnland hefði horft upp á meira fall í landsframleiðslu en í bankakreppunni á 10. áratugnum, og hvort evrópskir skattgreiðendur hefðu þurft að verja milljörðum evra í að bjarga ríkjum í sunnanverðri álfunni og þýskum og frönskum bönkum.

Christensen spyr lesendur hvort þeir haldi að Evrópa væri jafn sundruð og hún er núna, hvort þeir telji að flokkar á borð við Gullna dögun og Podemos hefðu orðið til, og hvort 23 milljónir Evrópubúa væru atvinnulausar. „Svarið við öllum þessum spurningum er NEI!“ segir Christensen.

Hann vitnar jafnframt í hagfræðingana Milton Friedman og Friedrich Hayek, en sá fyrrnefndi lýsti yfir verulegum efasemdum um evruna þegar á 10. áratugnum.