*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Innlent 21. september 2008 16:06

Lárus Welding: Sveigjanleiki í kerfinu er að skila okkur sterkri stöðu

Forstjóri Glitnis í Silfri Egils

Ritstjórn

Lárus Welding, forstjóri Glitnis, segist alls ekki telja hættu á að banka hér á landi verði þjóðnýttir og segir sögur um að íslenskir bankar felli reglulega gengi krónunnar til að skila gengishagnaði í uppgjörum sínum ósannar. Í Silfri Egils í dag sagði hann einnig að sameining Byrs og Glitnis sé ekki gengin í gegn og að hann myndi vilja sjá Seðlabankann lækka stýrivexti sem fyrst.

Aðspurður um fréttir vikunnar af erlendum bönkum sem hafa hrunið og riða til falls sagði Lárus íslensku bankana nokkuð vana því umhverfi sem erlendir bankar þurfa nú að búa við, þ.e. að vera með hátt skuldatryggingaálag.

„Við erum að sjá það aftur og aftur að sveigjanleikinn í kerfinu hjá okkur og hvernig við höfum undirbúið okkur er að skapa okkur verulega sterka stöðu. Helsta vandamálið í mörgum erlendum bönkum er að þeir eru mjög háðir einum eignaflokki, þ.e. fasteignaveðlánum. Íslensku bönkunum hefur hins vegar tekist að dreifa eignunum mjög vel og þeir eru ekki mjög tengdir fasteignum,“ sagði Lárus.

Aðspurður hvort það sé eitthvað til í því að íslensku bankarnir setji gengi krónunnar niður viljandi þegar kemur að því að skila árshlutauppgjöri sagði Lárus svo ekki vera. „Við höfum ekki lagt neina áherslu á að horfa á hvernig gengishagnaður okkar þróast. Til lengri tíma litið er það ekki banka í hag að krónan sveiflist eða sé veik. Hagsmunir íslenska fjármálakerfisins eru fyrst og fremst stöðugleiki og hann viljum við sýna.“

Lárus benti einnig á að hvað viðskipti með krónur varðar þá séu íslensku bankarnir bara þjónustuaðili í kerfinu, einhver þyrfti að vera til staðar sem vildi kaupa og selja myntina til að hafa áhrif á gengið.

Vill sjá vaxtalækkun sem fyrst

Nú eru að sögn Lárusar að skapast mjög góð skilyrði til stýrivaxtalækkunnar. „Ég skil að Seðlabankinn er í erfiðri stöðu, en við teljum að það séu að myndast skilyrði til að lækka vexti. Ég myndi vilja sjá það gerast sem fyrst, það er mjög erfitt að ástand að hafa svona háa vexti í landinu og þá stoppa öll ný verkefni. Mjög fá verkefni standast arðsemiskröfu sem gerð er í dag varðandi útlán. Þegar grunnvextirnir eru 15,5% þá er mjög erfitt að skila nægri arðsemi í nýju verkefni,“ sagði Lárus.

Sameining ekki gengin í gegn

Lárus var að lokum spurður hvort sameining Byrs sparisjóðs og Glitnis væri gengin í gegn. "Nei, það hefur ekkert verið klárað um það mál. Við höfum sagt að það er rétt og eðlilegt að hagræða í fjármálakerfinu á Íslandi og um leið og slíkt gerist þurfum við að sjálfsögðu að tilkynna það til Kauphallarinnar. En þetta kemur bara fram þegar þar að kemur," svaraði Lárus.