Helga Halldórsdóttir íbúi í Borgarnesi, sem fer fyrir félagi sem stefnir að uppsetningu Latabæjarskemmtigarðs í bænum segir hugmyndina rétt að komast inn á teikniborðið. Það muni svo skýrast í júlí hvort og þá hvert framhaldið yrði að því er fram kemur í Fréttablaðinu .

„Verkefnið er til skoðunar hjá hópi fólks sem hefur áhuga á að koma einhverju á laggirnar sem byggt er á hugmyndafræði Magnúsar Scheving,“ segir Helga sem segir Magnús vera meðal þeirra sem komi að verkefninu sem muni miklu. „Magnús er auðvitað Borgnesingur og hefur sterkar rætur hingað heim í hérað.“

Fékk hópurinn þriggja milljóna króna styrk úr uppbyggingarsjóði Vesturlands á dögunum og segir Helga að næsta skref verði að ráða verkefnastjóra til að kanna mögulega staðsetningu og útfærslur sem og að kanna áhuga fjárfesta.

„Næstu sex mánuðir eru meðgöngutími og síðan verður að skýrast í júlí hver næstu skref hjá okkur verða. Það veltur auðvitað að stærstum hluta á áhuga fjárfesta og annarra sem leitað verður til varðandi aðkomu að verkefninu.“