Formannskjör SUS fer fram á sambandsþingi félagsins í Vestmannaeyjum þann 4. til 6. september. Laufey Rún Ketilsdóttir, lögfræðingur og framkvæmdastjóri SUS, gefur kost á sér til formanns félagsins. „Með framboði sínu vill Laufey efla starf SUS með frelsi einstaklingsins að leiðarljósi," segir í tilkynningu um framboðið.

„Ég vil með framboði mínu taka stöðu með ungu fólki í námi og starfi sem vill bæta lífskjör sín. Það hefur sýnt sig að aukið frelsi einstaklinga og atvinnulífs er besta leiðin að bættum lífskjörum. Fyrir þeim atriðum vil ég berjast innan Sjálfstæðisflokksins," segir Laufey Rún.

Laufey er 28 ára gömul og starfar sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Hún útskrifaðist með stúdentspróf af hagfræðibraut Verzlunarskóla Íslands, með BA próf í lögfræði frá HÍ og með meistarapróf í sömu fræðum frá HR. „Á námsárum sínum sat Laufey í ritnefnd Úlfljóts, tímarits laganema, starfaði í regluvörslu Arion banka og á Juris lögmannsstofu," segir í tilkynningu.

Hún hefur setið í stjórn SUS frá 2010, meðal annars sem ritari og varaformaður. Hún var áður í stjórn Heimdallar og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum innan flokksins. Hún er núverandi framkvæmdastjóri SUS.

Núverandi formaður SUS er Magnús Júlíusson.