Almar Guðmundsson hefur skrifað undir starfslokasamning við Samtök iðnaðarins. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá Kviku banka, tekur við framkvæmdastjórn samtakanna af Almari í ágúst. Í færslu á Facebook-síðu sinni kveðst Almar ánægður með árangur samtakanna undir sinni stjórn.

„Ég lít ánægður til baka vitandi að árangurinn þar undir minni stjórn undanfarin þrjú ár var mjög góður og mikilvægar breytingar gengu í gegn. Nú er þessum kafla lokið. Honum lauk með stórum hvelli sem á sér fáa líka, en ég geng frá borði stoltur og með hreina og góða samvisku.“

Hægt er að lesa Facebook status Almars í heild sinni hér;

Kæru vinir! Þá hef ég loksins skrifað undir starfslokasamning við Samtök iðnaðarins. Ég lít ánægður til baka vitandi að árangurinn þar undir minni stjórn undanfarin þrjú ár var mjög góður og mikilvægar breytingar gengu í gegn. Nú er þessum kafla lokið. Honum lauk með stórum hvelli sem á sér fáa líka, en ég geng frá borði stoltur og með hreina og góða samvisku.

Það er búið að vera algjörlega ómetanlegt að finna stuðning svo ótalmargra ykkar, fjölskyldu, vina, samstarfsfólks í Húsi atvinnulífsins, samstarfsfólks í gegnum tíðina á ýmsum vettvangi og samferðamanna. Það hafa margir haft samband og hvatt mig til dáða, þakkað fyrir góð störf, minnt mig á mikilvægi æðruleysis og hjálpað mér við að horfa á hið uppbyggilega frekar en eitthvað annað. Hafið innilegar þakkir fyrir stuðninginn kæru vinir. Hann er mér og minni fjölskyldu afar mikilvægur.

En nú er að njóta sumarsins og svo áfram með lífið. Og eins og einn góður maður orðaði það: „Það gerist eitthvað stórkostlegt næst!“