Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær tillögu forsætisnefndar um að gera breytingar á samþykkt um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa. Með ákvörðuninni afsala borgarfulltrúar sér launahækkun samkvæmt úrskurði Kjararáðs um hækkun þingfarakaups auk þess sem laun þeirra eru aftengd framtíðarákvörðunum ráðsins en laun fulltrúa hafa miðast við 78,82% af þingarakaupi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Tillagan var samþykkt með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn atkvæði Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina. Aðrir borgarfulltrúar sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Ef hækkanirnar hefðu tekið gildi samkvæmt úrskurði Kjararáðs um hækkun þingfarakaups hefðu grunnlaun borgarfulltrúa hækkað úr tæplega 594 þúsund krónum í tæplega 857 þúsund krónur en með samþykkt borgarstjórnar hækka úr tæplega 594 þúsund í 633,5 þúsund krónur eða um 6,7%.

„Með samþykkt borgarstjórnar nú verða hækkanir á launum allra kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg innan viðmiða Salek samkomulagsins auk þess sem þau muna héðan í frá taka breytingum í samræmi við launavísitölu í stað þess tengingu við þingfararkaup,“ segir í fréttatilkynningunni frá Reykjavíkurborg.