*

föstudagur, 22. júní 2018
Innlent 22. ágúst 2017 11:58

Laun hækkað um meira en þriðjung

Hækkun einstakra stétta hjá hinu opinbera nemur 86% af meðallaunum ASÍ. Mesta hækkunin hjá einstökum hópum nam 34%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Frá árinu 2014 hafa laun hjá hinu opinbera hækkað mikið, eða allt að 34% fyrir suma hópa. Dósent segir svigrúm til mikilla hækkana fullnýtt. Launaskrið hjá hinu opinbera hefur verið mikið frá árinu 2014 en laun einstakra hópa hafa hækkað um allt að 34% síðan þá. Í Morgunblaðinu er nefnt að hækkunin hjá mörgum hópum sé á bilinu 18 til 20%.

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands segir í Morgunblaðinu í dag að fá dæmi séu um að opinberir starfsmenn hafi fengið jafnmikla kjarabót á svo skömmum tíma. Voru til dæmis laun rúmlega 400 einstaklinga sem heyra undir kjararáð um 31% hærri í lok mars en að meðaltali árið 2014, en meðalheildarlaun þeirra námu 1.144 þúsund krónum í marslok.

Til dæmis höfðu félagar í Læknafélagi Íslands 1.195 þúsund í mánaðarlaun árið 2014 en 1.579 þúsund í lok mars, sem er hækkun um 384 þúsund. Það eru um 86% af meðallaunum hjá ASÍ. Ásgeir segir nýtt skeið vera að hefjast í hagsveiflunni þar sem rúm til launahækkana verði minna en verið hefur. Hann segir ljóst að útkoma endurnýjunar kjarasamninga hins opinbera muni vera nýtt til viðmiðunar hjá stéttarfélögum á einkamarkaði.