Mánaðarlaun Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar, voru um 40 sinnum hærri en meðallaun á íslenskum vinnumarkaði á síðasta ári. Samkvæmt ársskýrslu Össurar fyrir árið 2014 hafði hann í heildina 18,4 milljónir króna í tekjur á mánuði, en meðallaun á Íslandi voru á sama tíma 454 þúsund krónur á mánuði samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Viðskiptablaðið kannaði laun nokkurra íslenskra forstjóra og bar þau saman við meðallaun á íslenskum vinnumarkaði. Í útreikningunum eru heildarlaun forstjóranna tekin saman samkvæmt ársreikningum fyrirtækja þeirra, og eru þar bæði laun og önnur launatengd hlunnindi tekin með í reikninginn.

Jón Sigurðsson hefur langhæstu launin, en þar á eftir kemur Finnur Árnason, forstjóri Haga, með 7 milljónir króna á mánuði. Eru laun hans því um 15 sinnum hærri en meðallaun.

Mun minni munur á Íslandi en í Bandaríkjunum

Bandaríski fjölmiðillinn Wall Street Journal birti í gærkvöldi niðurstöður nýrrar rannsóknar þar sem samanburður var gerður á launum bandarískra forstjóra og meðallaunum. Samkvæmt niðurstöðum hennar eru launahæstu bandarísku forstjórarnir með laun sem eru meira en 300 sinnum hærri en meðallaun í Bandaríkjunum. Það er því ljóst að bilið er töluvert breiðara í Bandaríkjunum en hér á landi.

Við útreikning á meðallaunum hér á landi var fundið meðaltal reglulegra launa allra sem voru fullvinnandi á árinu 2014. Samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar eru regluleg laun greidd mánaðarlaun fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Í þessum launum eru hvers konar álags-, bónus- og kostnaðargreiðslur, svo sem föst yfirvinna, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili.

Laun nokkurra íslenskra forstjóra í samanburði við meðallaun:

  • Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar - 18,4 milljónir - 40 sinnum meðallaun.
  • Finnur Árnason, forstjóri Haga - 7 milljónir - 15,4 sinnum meðallaun.
  • Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips - 5,8 milljónir - 12,8 sinnum meðallaun.
  • Eggert Benedikt Guðmundsson, þáv. forstjóri N1 - 4,7 milljónir - 10,4 sinnum meðallaun.
  • Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group - 3,8 milljónir - 8,4 sinnum meðallaun.