*

þriðjudagur, 23. apríl 2019
Innlent 15. september 2016 16:07

Launadeilur töfðu

Sérfræðingar sem unnu að rammaáætlun stóðu í launadeilu við ráðuneyti og segir fyrrverandi ráðherra að klúður sé í uppsiglingu.

Trausti Hafliðason
Haraldur Guðjónsson

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, staðfestir að deilur um laun hafi orðið til þess að faghópar, sem störfuðu með verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar, hafi verið skipaðir seint. Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra, segir að þetta hafi orðið til þess að einn faghópurinn hafi ekki treyst sér til að meta þjóðhagslega hagkvæmni og því í raun skilað auðu.

Sigrún mælti í fyrradag á Alþingi fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Er tillagan samhljóða þeim niðurstöðum sem verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar kemst að í lokaskýrslu sinni, sem gerð var opinber í lok ágústmánaðar.

Í umræðum um málið á Alþingi benti Kristján á að faghópur 3 hafi ekki verið skipaður fyrr en um mitt síðasta ár og faghópur 4 ekki fyrr en í lok ársins.

Hann sagði að í þingsályktunartillögunni væri fjallað um niðurstöðu faghóps 4. Síðan las hann upp úr tillögunni:  „Faghópur 4 komst að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur, ekki séu forsendur, til að meta þjóðhagslega hagkvæmni þeirra virkjanakosta sem til umfjöllunar eru í 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar. Því var ekki um aðrar niðurstöður að ræða frá þeim faghópi."

Klúður í uppsiglingu?

Kristján situr í atvinnuveganefnd og sagði hann að á fundi, þar sem tillagan hafi verið kynnt nefndinni, hafi komið skýrt fram að vegna þess að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi ekki getað tryggt fjármuni, og sagt hvernig hafi átt að greiða þeim sérfræðingum sem tóku að sér vinnu í faghópunum laun, hafi þeir í raun ekki tekið til starfa.

„Þetta kom fram á fundi nefndarinnar — alveg skýrt," sagði Kristján. „Afhverju nefni ég þetta? Jú, það er vegna þess að það er þegar kominn upp ágreiningur vegna þess að faghópar 3 og 4 störfuðu ekki. Ég tel að ráðuneytið hafi ekki staðið sig og eigi stóran þátt í því klúðri sem er að renna hér upp."

Sigrún þvertók fyrir að klúður væri í uppsiglingu, sérstaklega þar sem þingsályktunartillagan væri samhljóða niðurstöðu verkefnisstjórnar. Engar breytingar hefðu verið gerðar. Eins og áður sagði var verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar skipuð í mars 2013 en Sigrún sagði að faghópar 1 og 2 hefðu ekki tekið til stafa fyrr rúmu árið síðar eða í maí 2014.

„Faghópar eru skipaðir af verkefnisstjórn en ekki ráðuneytinu. Það er rétt, ég hef heyrt það, að þetta fyrsta ár var deilt um laun til faghópa en það snerti faghópana alla í heild sinni ..."

Ófullnægjandi upplýsingar

Viðskiptablaðið hefur fjallað um lokaskýrslu verkefnisstjórnar í síðustu tveimur tölublöðum. Í þeim greinum hefur meðal annars verið bent á að faghópur 4, sem átti að meta þjóðhagslega hagkvæmni virkjunarkosta, hafi ekki gert það enda hafi hann verið skipaður mjög seint.

Daði Már Kristófersson, hagfræðingur og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, var formaður faghóps 4.

„Ég er á því að menn hafi metið kostina á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. Okkar hópur var skipaður í desember og það var algjörlega útilokað að framkvæma þær rannsóknir, sem ég tel að hafi verið nauðsynlegar, á þeim stutta tíma sem við höfðum. Það hefði tekið tvö ár að klára þessar rannsóknir," sagði Daði Már í samtali við Viðskiptablaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim