Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um í morgun lækkaði gengi bréfa Icelandair nokkuð í fyrstu viðskiptum dagsins þrátt fyrir góða afkomu á öðrum ársfjórðungi eins og sagt var frá í gær. Þegar þetta er skrifað hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 5,26% í 409 milljón króna viðskiptum.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins á markaði segja ástæðuna vera, líkt og sagt er frá í kynningu á uppgjörinu, að hækkun EBITDU sé fyrst og fremst tilkomin vegna ytri þátta. Það er, vegna þess að olíuverð hefur haldist hagstætt og krónan veikst nokkuð, sem og sætanýting og tekjuvöxtur sé góður og jafnvel yfir væntingum.

Launahækkanir langt umfram styrkingu krónu

Á sama tíma hafi markaðurinn þó ekki trú á því að fyrirtækið nái að stemma stigu við kostnaðarhækkunum. Launakostnaðurinn hafi hækkað langt yfir spá ýmissa markaðsaðila, eða um 39% milli ára, meðan hækkunin nam 21% ársfjórðunginn á undan. Er þetta talið vera langt umfram það sem styrking krónu og aukin umsvif geta skýrt, en aðrir hafa bent á mikinn yfirvinnukostnað vegna annríkis og tafa í Leifsstöð.

Þó er annar rekstrarkostnaður undir spá sumra markaðsaðila, til að mynda lægri viðhaldskostnaður og lægri afgreiðslugjöld, sem í heildina er 5,9 milljónum Bandaríkjadala undir einni spá sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Fleiri afbókanir á hótelum

Jafnframt hefur afkoma í ferðaþjónustu Icelandair hefur einnig versnað hraðar en markaðsaðilar bjuggust við, með 40% hærri rekstrarkostnaði í ferðaþjónustustarfsemi fyrirtækisins milli fyrsta ársfjórðungs ársins í ár og í fyrra.

Við þetta hafi nú bæst fleiri afbókanir á hótelum félagsins og eftirspurn með skömmum fyrirvara hafi minnkað mikið. Einnig hafi veitingasala minnkað sem og eftirspurn eftir ferðatengdri þjónustu.