Launakostnaður Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hækkar um 28% milli ára. Þetta kemur fram í nýjum árshlutareikningi, sem fyrirtækið birti í vikuna fyrir samstæðuna. Á fyrstu níu mánuðum ársins námu laun og launatengd gjöld OR ríflega 3.907 milljónum króna en á sama tíma í fyrra var hann 3.062 milljónir.

Á milli áranna 2014 og 2015 hækkaði launakostnaður fyrirtækisins um 13% eða úr 4.370 milljónum í 4.934. Ársverkum fjölgaði um 21 á þessu tímabili og um síðustu áramót voru þau 462. Laun forstjórans hækkuðu um 12% milli áranna 2014 og 2015. Um síðustu áramót var hann með 24,8 milljónir í árslaun eða tæplega 2,1 milljón á mánuði. Á milli áranna 2013 til 2014 hækkaði launakostnaður OR um 9% en það ár fækkaði ársverkum úr 445 í 441.

Fyrstu níu mánuði ársins 2015 nam rekstrarkostnaður 10,7 milljörðum samanborið við 11,8 milljarða á sama tímabili á þessu ári. Rekstrarkostnaður hækkar því um tæplega 1,1 milljarð á milli tímabila. Skýrist það helst af auknum launakostnaði en hann hækkaði um tæplega 850 milljónir. Orkuveitan, eða öllu heldur ON, selur ekki bara raforku heldur kaupir hana einnig af Landsvirkjun. Kostnaður við orkukaup lækkaði úr 4.650 milljónum 4.550 milli tímabila.

Hagnaður OR samstæðunnar fyrstu níu mánuðina nam tæplega 9,4 milljörðum. Þetta þýðir að hagnaðurinn eykst um  203% frá sama tíma í fyrra því fyrstu níu mánuðina árið 2015 nam hann tæplega 3,1 milljarði.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir að reksturinn gangi vel og samkvæmt áætlun.

Launakostnaður stingur í stúf

„Þetta er allt í þeim böndum sem við höfum unnið að því að koma fyrirtækinu í," segir Bjarni.  „Það eina sem aðeins stingur í stúf er að launakostnaður er að hækka og aðeins umfram það sem við hefðum viljað."

Spurður hvað skýri aukinn launakostnað milli ára svarar Bjarni: „Þetta skýrist af hækkun kjarasamninga og síðan erum við líka búin að fjölga starfsfólki um 20 til 30 á árinu. Í heildina vinna í dag um 485 manns hjá okkur. Fjölgunin hefur aðallega verið í veituhlutanum því þar eru mörg verkefni eins og til dæmis ljósleiðaravæðingu og þar önnum við varla eftirspurn. Þess má geta að 620 manns störfuðu hjá OR þegar mest var fyrir fáeinum árum síðan. Það er engin ein tala hvað mönnun varðar rétt. Við erum alltaf að reyna að finna jafnvægi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .