Laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 4,5% þann 1. maí samkvæmt gildandi kjarasamningum SA og aðildarsamtaka ASÍ. Þetta benda Samtök atvinnulífsins á á heimasíðu sinni.

Þar kemur einnig fram að reikna má með því að við þetta hækki launakostnað fyrirtækja um 42 milljarða króna á árgrundvelli ef miðað er við að heildarlaunagreiðslur fyrirtækja á almennum markaði á árinu 2016 hafi numið 940 milljörðum.

„Hækkun iðgjalds í lífeyrissjóði 1. júlí næstkomandi um 1,5%  hækkar launakostnað fyrirtækja á almennum markaði um 14 milljarða á ári til viðbótar þannig að umsamin launakostnaðarhækkun fyrirtækja á þessu ári nemur 56 milljörðum króna á ársgrundvelli,“ kemur einnig fram í frétt SA.

SA bendir enn fremur á að þetta séu ríflegar launahækkanir ef horft er til nágrannalandanna. „Samkvæmt nýjum kjarasamningum í Svíþjóð hækka laun um samtals 6,5% á þremur árum til loka mars 2020. Í Noregi hækka laun um 2,4% á þessu ári,“ segir í fréttinni.