Árið 2012 var launakostnaður á greidda stund í Evrópu hæstur í Noregi, en þar kostaði hver stund 57,1 evru sem er rúmlega sextánfaldur kostnaður miðað við Búlgaríu þar sem hann var lægstur, 3,4 evrur. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Hagstofu Íslands á launakostnaði í Evrópu árið 2012.

Á Íslandi var launakostnaður á greidda stund að meðaltali 23,2 evrur árið 2012, sem var lægri en að meðaltali hjá löndum Evrópusambandsins þar sem hann var 24,1 evrur. Launakostnaður var að jafnaði lægri í Austur- og Suðaustur-Evrópu.

Ef einungis er horft til Evrópusambandslanda sem voru í Evrópska myntbandalaginu árið 2012 þá var launakostnaður á greidda stund hæstur að meðaltali í Belgíu eða 38,1 evra, sem er rúmlega fjórfalt miðað við kostnaðinn í Eistlandi þar sem launakostnaður var lægstur, 8,6 evrur.