Launavísitala aprílmánaðar er 570,4 stig og hækkar um 0,3% frá fyrri mánuði. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 13,4%. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands í dag.

Vísitala kaupmáttar launa í apríl 2016 mælist að samaskapi 134,9 stig og hækkar um 0,1% milli mánaða.Síðustu tólf mánuði hefur vísitala kaupmáttar launa hækkað um 11,6%.

Áhrif af kjarasamningum

Samkvæmt Hagstofunni verður launavísitala aprílmánaðar fyrir áhrifum af samkomulagi frá lok mars 2016 milli Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins þess efnis að launahækkun upp á 5,5%, sem taka átti gildi 1. maí síðastliðinn, var hækkuð í 6,2% og gildir frá og með ársbyrjun 2016.

Í árshækkun vísitölunnar gætir jafnframt áhrifa tveggja kjarasamningshækkana hjá hluta atvinnulífsins, svo sem aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands við Samtök atvinnulífsins sem skrifað var undir þann 21. janúar síðastliðinn.