Veitingastaðurinn Le Kock lokaði í gær stað sínum í Ármúla 42, og bakaríið Deig lokaði á Seljabraut 54, en staðirnir eru reknir saman. Starfsemi staðanna tveggja mun þó halda áfram á Tryggvagötu 14. Þetta kemur fram í tilkynningu á facebook-síðu Deigs .

Le Kock opnaði fyrir tæpum tveimur árum í Ármúlanum, en síðasta haust var staðurinn við Tryggvagötu opnaður.

Í tilkynningunni er húsnæði Le Kock í Ármúla og Deigs við Seljabraut sögð hafa þjónað tilgangi sínum vel, og reksturinn hafa gengið frábærlega strax frá fyrsta degi, en nú sé komið að nýjum kafla.

Húsnæðið á Tryggvagötunni geri starfsmönnum fyrirtækisins kleift að vinna allir saman undir sama þaki aftur, og „halda áfram að skapa eitthvað nýtt og spennandi, alla daga.“