Frá árinu 2011 hefur Landspítalinn staðið í umfangsmiklu umbótaferli undir formerkjum straumlínustjórnunar eða svokallaðs Lean Healthcare. Ferlið hefur verið unnið í samstarfi við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, Cincinnati Children’s og Virginia Mason sjúkrahúsin í Bandaríkjunum en sá síðarnefndi er brautryðjandi í aðferðafræði straumlínustjórnunar á heilbrigð- isstofnunum. Vegferðin hófst árið 2011 með stuðningi frá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey og hefur breytt miklu í rekstri spítalans frá þeim tíma.

Aðferðafræði straumlínustjórnunar felst fyrst og fremst í því að takmarka sóun en að sögn Benedikts Olgeirssonar, framkvæmdastjóra þróunar hjá Landspítalanum, hefur sá hugsunarháttur skilað sér í bættu öryggi, aukinni skilvirkni og aukinni starfsánægju innan spítalans. T.a.m. hefur tími frá komu til læknis á bráðadeild styst verulega auk þess sem hlutfall skemmdra sýna innan spítalans hefur lækkað verulega. Notast er við rauntímamælingar á öllum sviðum spítalans þar sem stöðugt er fylgst með því t.a.m. hversu lengi sjúklingar eru á bið­ stofum, fjölda sjúklinga o.fl.

Ekki munur á opinbera og einkageiranum

Aðferðir straumlínustjórnunar hafa notið aukinna vinsælda hjá fjölmörgum íslenskum fyrirtækjum en eru minna þekkt á sviðum opinbers reksturs og þjónustu . Spurður að því hvort munur sé á því að beita slíkum aðferð­ um innan opinbera geirans og einkageirans segir Benedikt að svo sé ekki. „Það er enginn munur á þessu hjá opinberum stofnunum,“ segir hann. „Ef þú skoðar okkar skipulag þá erum við með sambærilega ferla og hjá fyrirtækjum í einkageiranum. Landspítali er náttúrulega stórt þjónustufyrirtæki. Við erum að bæta okkar þjónustu og auka skilvirkni alla daga. Það sem er öðruvísi er að við erum að glíma við flæði sjúklinga. Munurinn á spítölum og öðrum stofnunum og fyrirtækjum er ekki háð rekstrarforminu, hann er fólginn í því að við glímum við mjög viðkvæmt flæði á fólki.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .