Dýrasta sjónvarpsþáttasería á Íslandi er í undirbúningi í smiðju RVK Studios, framleiðslufyrirtækið Baltasars Kormáks. Þættirnir verða tíu talsins og heitir sjónvarpsserían Ófærð. Sigurjón Kjartansson, þróunarstjóri RVK Studios, skrifar handritið með leikaranum, Ólafi Egilssyni, Jóhanni Ævari grímssyni og Bretanum Clive Bradley. Sigurjón segir í samtali við Fréttablaðið að íslenskar sjónvarpsseríur hingað til hafi kostað á bilinu 150-200 milljónir króna. Kostnaðurinn við Ófærð nálgast einn milljarð króna sem er fimmfalt meira en aðrar sjónvarpsþáttaseríu hafa kostað. Stefnt er á að tökur hefjist í haust og að sjónvarpsserían verði sýnt á RÚV á næsta ári.

Í Fréttablaðinu segir að serían hafi verið kynnt á kaupráðstefnunni MIPTV í Cannes í Frakklandi fyrir stuttu. Leikstjórn verður í höndum Baltasars Kormáks, sem nú er í tökum á stórmyndinni Everest. Dreifingarfyrirtækið Dynamic Television sér um alþjóðlega dreifingu seríunnar.

Sigurjón segir að með gerð Ófærðar eigi að stíga skref inn á stærri markað en áður. Til að gera seríu sem geti keppt almennilega við aðrar skandinavískar seríur þurfi meiri pening en alla jafna hafi verið sett í sjónvarspþáttagerð.