Tilnefningarnefnd Skeljungs hf. leggur til að Jón Ásgeir Jóhannesson verði kjörinn í stjórn félagsins á hluthafafundi sem fram fer 27. maí næstkomandi. Ný stjórn var kjörin á aðalfundi í mars síðastliðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar,.

Tilnefningarnefndinni bárust framboð frá öllum sem mynda sitjandi stjórn. Til viðbótar bárust þrjú framboð. Hið fyrsta frá Söndru Hlíf Ocares, framkvæmdastjóra Íslenska byggingavettvangsins, fasteignasalanum Þórarni Arnari Sævarssyni, svæðisstjóra RE/MAX á Íslandi og stjórnarformanni Kaldalóns ehf. og frá áðurnefndum Jóni Ásgeiri.

Tilnefningarnefndin leggur til að ein breyting verði gerð á stjórninni og að Jón Ásgeir verði kjörinn í stjórn í stað Kjartans Arnar Sigurðssonar, framkvæmdastjóra SRX ehf. og framkvæmdastjóra Verslanagreiningar hf.

Sjá einnig: Baráttan um Skeljung

Aðrir í stjórn eru Baldur Már Helgason, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Regin, Ata Maria Bærentsen, lögfræðilegum ráðgjafa og ritara stjórnar danska upplýsingatæknifyrirtækisins NNIT A/S, Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair hf., og Jens Meinhard Rasmussen framkvæmdastjóri Skansi Offshore. Síðastnefndur Jens er formaður stjórnar og Birna Ósk varaformaður.

Félagið 365 miðlar, sem er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs, hóf í síðasta mánuði að losa um hlut sinn í Högum og kaupa í Skeljungi þess í stað. Hlutur þess í Skeljungi, bæði beint og í gegnum framvirka samninga, nemur nú 10,91%. Óskaði félagið eftir hluthafafundi þann 23. apríl síðastliðinn til að endurnýja umboð stjórnar.

Sagt var frá því í Viðskiptablaðinu í síðustu viku að áhöld væru uppi um framkvæmd fundarins og hvort kjósa þyrfti um það sérstaklega að kjósa núverandi stjórn burt áður en ný stjórn væri kosin. Fyrr á þessu ári var nokkuð rætt um framboð Jóns Ásgeirs til stjórnar Haga en þar hlaut hann ekki brautargengi og taldi Ingibjörg að starfshættir tilnefningarnefndar Haga hefðu ekki verið í samræmi við venju.