Neytendastofa hefur lagt á tímabundið bann hjá þremur innflytjendum við sölu og afhendingu á spinnerum vegna skorts á merkingum og upplýsingum um vöruna að því er kemur fram í frétt á vefsíðu Neytendastofu.

„Ríkar kröfur eru gerðar varðandi framleiðslu leikfanga s.s. efnainnihald, kröfur um að smáir hlutir losni ekki frá og skapi köfnunarhættu o.fl. Innflytjendur hafa ekki á þessu stigi máls lagt fram gögn sem sýna fram á öryggi vörunnar í samræmi við gildandi lög og reglugerðir,“ segir þar.

Mörg hundruð þúsund eintök hafa verið tekin af markaði að undanförnu vítt og breitt á Evrópska efnahagssvæðinu og vörum einnig vísað frá í tolli í EES-ríkjum. Neytendastofa vill hvetja almenning og forráðamenn að huga að því að á þessu stigi er ekki vitað um hvaða efni eru í vörunum og tilkynningar hafa borist stjórnvöldum um að smáir hlutir hafi losnað.