Samtök fjármálafyrirtækja gagnrýna séríslenskar reglur í frumvarpi fjármálaráð- herra til laga um breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki. Breytingarnar eru að mestu til þess fallnar að innleiða nýtt regluverk Evrópusambandsins um fjármálafyrirtæki, CRD IV, sem byggir á Basel III staðlinum. Frumvarpið var lagt fram í febrúar síðastliðnum en SFF skiluðu umsögn sinni í síðustu viku.

Í umsögninni kemur fram að samtökin leggja mikla áherslu á að innlend löggjöf á sviði fjármálamarkaðar sé að mestu leyti í samræmi við þá löggjöf sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Ástæðan sé m.a. sú að frávik myndu auka kostnað innlendra fjármálafyrirtækja og valda því að lánskjör hér á landi verða hærri en í samkeppnislöndum.

Að sögn Guðjóns Rúnarssonar, framkvæmdastjóra SFF, eru samtökin ekki aðeins á móti þessum tilteknu sérákvæðum heldur vilja þau almennt falla frá séríslensku regluverki þegar kemur að lögum um fjármálafyrirtæki.

„Við erum almennt þeirrar skoðunar að það eigi ekki að setja séríslenskar reglur um fjármálamarkaði vegna þess að þær eru til þess fallnar að valda auknum kostnaði hjá fjármálafyrirtækjum sem leiðir til aukins kostnaðar til fyrirtækja og svo til almennings,“ segir Guðjón.

Vilja sömu kaupauka og í Evrópu

Eitt af helstu þrætueplum frumvarpsins eru ákvæði um „breytileg starfskjör“ eða kaupaukagreiðslur starfsmanna fjármálafyrirtækja. Samkvæmt núgildandi reglum má hlutfall kaupauka ekki vera hærra en 25% af föstum árslaunum starfsmanns en í tilskipun ESB getur hlutfallið verið 100% af föstum starfskjörum auk þess sem hluthafafundi fjármálafyrirtækis er heimilt að hækka það upp í 200%. Ekki er gert ráð fyrir að hlutfallinu verði breytt í frumvarpinu. SFF vill hins vegar innleiða tilskipun ESB að fullu.

„Við erum þeirrar skoðunar að þetta óhefta umhverfi sem var í gangi árum áður skapaði augljóslega freistnivanda á vissum sviðum,“ segir Guðjón. „Nú er Evrópusambandið búið að takmarka þetta verulega og hægt að koma í veg fyrir of mikla áhættu af völdum kaupaukagreiðslna. Ágallinn á eldra kerfinu var t.a.m. sá að fólk gat fengið afraksturinn mjög skjótt en regluverkið miðar að því að fólk getur ekki tekið út kaupauka strax og þarf raunverulega að sýna sig í rekstri áður en það fær slíkar greiðslur. Kaupaukar eru þar að auki mjög algengir í ýmsum atvinnugreinum sem leið fyrir fyrirtæki til að búa til ákveðna sveiflujöfnun í sinni starfsemi.“

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .