Þingmaður Framsóknarflokksins, Vigdís Hauksdóttir, hefur lagt fram kæru vegna níðskrifa. Kæran beinist að Gunnari Waage, ritstjóra vefsíðunnar Sandkassinn.com.

Á síðunni birtist nýlega listi yfir einstaklinga sem titlaðir eru íslenskir nýrasistar. Á listanum má finna ýmsa aðila sem hafa verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Ásamt Vigdísi Hauksdóttur, má einnig finna nöfn á borð við Davíð Oddsson, Ásmund Friðriksson, Guðna Ágústsson, Viðar Guðjohnsen, og Páll Vilhjálmsson.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Vigdís þennan lista hafa verið kornið sem fyllti mælinn. Eftir rúmlega sjö ár af níðskrifum hafi hún séð sig knúna til þess að leggja fram kæru. Vefsíðunni hefur verið lokað, en listinn er á Facebook-síðu Sandkassans.

Efitrfarandi texti fylgdi ákæru Vigdísar, en þetta er textabrot af vefsíðunni: „Hér eru listaðir þeir menn og konur sem eru áberandi í umræðu opinberum vettvangi, gegna ábyrgðar stöðum, háir jafnt sem lágir, sem eiga það sameiginlegt að beita sér af mikilli hörku í garð fjölmenningar á Íslandi. Margir þeirra afneita tilvist fjölmenningar hér á landi alfarið. Það er ekki nokkur leið að komast á þennan lista fyrir slysni. Það er ekki nóg að missa einu sinni út sér eitthvað og vinna sér inn greiningu um að vera nýrasisti. Til þess þarf einbeittan áróður gegn fólki á grundvelli þjóðernis, litarháttar eða uppruna yfir talsvert tímabil. Þeir sem hér eru, eru persónur sem rekið hafa slíkan áróður yfir langt tímabil.“