Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs segir viðvörunarljós blikka á bandarískum hlutabréfamarkaði. Viðskiptavinir bankans eru ráðlagðir að búa sig undir leiðréttingu á markaðnum á komandi mánuðum. CNBC greinir frá .

„Hver svo sem íkveikjan verður virðist leiðrétting af einhverjum toga vera mjög líkleg á komandi mánuðum,“ skrifaði Peter Oppenheimer, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri hjá Goldman Sachs, til viðskiptavina bankans í dag.

Í bréfinu bendir Oppenheimer á að bola- og bjarnarmarkaðsvísir Goldman Sachs - sem mælir hættuna á verðfalli á hlutabréfamarkaði - sé í hæstu hæðum. Markaðsvísirinn náði síðast hámarki fyrir áratug síðan, rétt áður en hlutabréfamarkaðurinn skipti úr bolagír í bjarnargír og upplifði yfir 20% verðfall í fjármálakreppunni.

Lítil áframhaldandi verðbólga og aðhaldslítil peningastefna gefur þó til kynna að samdráttur (10-20% verðfall) sé líklegri heldur en bjarnarmarkaður (yfir 20% verðfall) og segir Oppenheimer að líkurnar á bjarnarmarkaði séu litlar.

S&P 500 vísitalan hefur verið í sínum lengsta hækkunarfasa án 5% verðfalls síðan árið 1929, eða frá því að kreppan mikla skall á. Oppenheimer bendir á að mikil bjartsýni hefur ríkt á hlutabréfamarkaði eftir að Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna, en að skattabreytingar Repúblikana og riftun á viðskiptasamningum kunni að valda ójafnvægi á markaði.