Viðskiptablaðið kannaði verð á leigubílaþjónustu á Íslandi í samanburði við verðið í evrópskum ríkjum. Af þeim samanburði að dæma er verðið hér á landi í hærri kantinum.

Meðalverð á 10 kílómetra leigubílaakstri í kaupmáttarleiðréttum Bandaríkjadollurum árið 2017 nemur 26,4 dollurum á Íslandi. Er þar tekið mið af startgjaldi ásamt kílómetragjaldi án viðstöðu.

Verðið hér á landi er að jafnaði 12% hærra en á Norðurlöndunum og mælist hvergi hærra, þó Danmörk fylgi fast á eftir. Þá er verðið hér á landi að meðaltali tæplega 16% hærra en í 28 ríkjum Evrópusambandsins (ESB). Í þeim samanburði er verðið á Íslandi hærra en í 19 ríkjum og á pari við Bretland og Austurríki. Sé litið vestur um haf er verð á leigubílaþjónustu á Íslandi að jafnaði 63% hærra en í Bandaríkjunum.

Séu meðaltölin vegin eftir fólksfjölda er meðalverðið á leigubílaakstrinum hér á landi 5,7% hærra en í ríkjum Evrópusambandsins og 13,7% hærra en á Norðurlöndunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .