Á leigumarkaði hafa umsvif leigufélaga færst í vöxt undanfarin ár. Leigufélög eiga og leigja út íbúðir eða annað húsnæði til langs tíma, ásamt því að annast rekstur þeirra og umsýslu.

Áætlað er að um 23% allra íbúða í landinu sé í leigu, eða alls um 29 þúsund íbúðir. Fimmti hver íbúi í landinu býr í leiguíbúð. Í grófum dráttum skiptist leigumarkaðurinn í tvennt. Annars vegar leigja út einkaaðilar íbúðir á almennum markaði og hins vegar leigja félagssamtök og sveitarfélög út svokallaðar félagslegar leiguíbúðir, sem reknar eru án hagnaðarsjónarmiða. Almennar leiguíbúðir eru taldar vera um 70% af af leigumarkaðnum eða um 16.500 einingar, en félagslegar íbúðir u.þ.b. þriðjungur eða 12.500 einingar.

Skráð félög og fyrirtæki í útleigu íbúðarhúsnæðis voru 346 talsins árið 2008, 365 árið 2011 og eru nú um 430. Undanfarin átta ár hefur leigufélögum í útleigu íbúðarhúsnæðis því fjölgað um tæplega fjórðung. Hafa ber þó í huga að þessar tölur segja ekkert um virkni félaganna í rekstri eða veltu, og má því gera ráð fyrir því að virk leigufélög á markaði séu færri en skráð félög.

Óljóst er hvernig samkeppni einkaaðila á leigumarkaði hefur þróast undanfarin ár, en hinn almenni leigumarkaður samanstendur að mestu af einstaklingum og einkahlutafélögum með tugi eða jafnvel hundruðir íbúða í útleigu (um 30 að meðaltali) og svo fjársterkum leigufélögum sem litið hafa dagsins ljós. Tvö stærstu félögin eru Heimavellir og Almenna leigufélagið. Í útleigusafni Heimavalla eru um 1.800 íbúðir um allt land og í safni Almenna leigufélagsins eru um 900 íbúðir.

Uppkaup fjárfesta á íbúðarhúsnæði á Íslandi til útleigu þarf vart að koma á óvart. Mörg slík félög voru stofnuð eftir bankahrun í þeirri trú að íslenski fasteignamarkaðurinn væri undirverðlagður. Og veðmálið hefur gengið upp. Leiguverð, sem endurspeglar núgildandi ávöxtunarkröfu á markaðsverð húseignar, hefur hækkað um tæplega 61% á höfuðborgarsvæðinu frá því í janúar árið 2011. Árið 2016 nam hækkunin 10,1%.

Mikill vöxtur á skömmum tíma

Heimavellir var stofnað árið 2013 að mestu leyti með sameiningu smárra leigufélaga í eitt félag. Stærðarmat leigumarkaðarins í upphafi þessarar greinar var fengið hjá Heimavöllum, en nákvæmar tölur eru ekki fáanlegar. Félagið er í eigu útgerðarfélagsins Stálskips, tryggingafélagsins Sjóvá og lífeyrissjóða og er með tæplega 11% hlutdeild á almennum leigumarkaði. Um 85% af leigusafni Heimavalla er á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesskaganum og á svæðinu frá Selfossi á suðvesturhorninu til Akraness.

„Félagið hefur vaxið hratt frá stofnun,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla. „Félagið var með um 500 milljónir í veltu eða leigutekjur árið 2015 og 1,4 milljarða á síðasta ári. Við gerum ráð fyrir því að veltan fari í 3,2 milljarða í ár. Íbúðir í útleigu hjá okkur voru um 400 í upphafi síðasta árs, en við bættum við 1.400 íbúðum í fyrra. Við keyptum leigufélagið Tjarnarverk, með um 108 íbúðir í Reykjanesbæ, og sameinuðumst leigufélaginu Ásabyggð, sem var með 720 íbúðir í Ásabrú. Það er ótrúleg gróska í Reykjanesbæ og í kringum Keflavíkurflugvöll,“ segir Guðbrandur. „Við höfum því byggt upp félagið með því að sameina smærri leigufélög. Í fyrsta skipti núna erum við að setja nýjar íbúðir á leigumarkaðinn með íbúðakaupum.“

Almenna leigufélagið var stofnað árið 2014 og er í eigu fasteignasjóðs í stýringu fjármálafyrirtækisins GAMMA Capital Management. Markaðshlutdeild félagsins á almennum leigumarkaði er um 5,5% og er um 70% af leigusafninu á höfuðborgarsvæðinu að markaðsvirði. Félagið hefur verið að vaxa jafnt og þétt, en stærsti vaxtarkippurinn kom í maí síðastliðnum þegar félagið keypti Klett leigufélag af Íbúðalánasjóði og bætti þar með um 450 íbúðum í leigusafnið.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignir , sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .