Í hagfræði eru afskipti og inngrip hins opinbera á markaði iðulega rökstudd í þeim afmarkaða tilgangi að leiðrétta tímabundinn markaðsbrest eða ójafnvægi á markaði. Þá er annaðhvort of mikið framleitt af tilteknum gæðum eða of lítið, og einhver – markaðsaðilar eða ríkið – hefur reynt að setja markaðsverðið of hátt eða of lágt, sem leiðir til óskilvirkni í framleiðslu.

En yfirgripsmikil ríkisíhlutun í markaðshagkerfinu og stór fjárútlát almannafjár þykja óæskileg. Til að mynda truflar ríkisíhlutun verðmyndun og verðmætasköpun á markaði og skekkir þær upplýsingar sem felast í markaðsverði. Markaðsinngrip hins opinbera, t.d. á húsnæðismarkaði, getur þannig bjagað forsendur markaðsaðila – neytenda, fjárfesta og framleiðenda – við ákvarðanatöku, skekkt samkeppnisskilyrði og raskað hagkvæmustu nýtingu aðfanga.

Miðað við fasteignamat verða leiguheimilin um 2% af markaðnum. Samkvæmt mati Analytica á áhrifum verkefnisins má ætla að verkefnið muni að einhverju leyti mæta uppsafnaðri þörf fyrir leiguhúsnæði og lækka raungildi leiguverðs til lengri tíma litið.

Engin ástæða er til að efast um það að leiguheimilin muni ekki bæta húsnæðisöryggi margra einstaklinga. Þetta er það sem sést. En það sem ekki sést og tekur lengri tíma að koma fram eru aukaverkanir og ófyrirhugaðar afleiðingar verkefnisins á almennum húsnæðismarkaði.

Í umsögn skrifstofu opinberra fjármála hjá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu um almennu íbúðirnar koma fram athugasemdir um efnahagsleg áhrif kerfisins. Kemur þar fram að auknir opinberir styrkir til íbúðamála, samhliða hækkun húsaleigubóta, gætu leitt til hækkunar á fasteignaverði og leigu á almennum húsnæðismarkaði. Það myndi koma niður á hag kaupenda og leigjenda utan félagslega kerfisins.

Einnig er bent á að auknar íbúðabyggingar á grundvelli opinberra styrkja stuðli að ójafnvægi í hagkerfinu, sérstaklega í ljósi núverandi hagvaxtarskeiðs þar sem byggingaframkvæmdir á vegum einkaaðila fara vaxandi.

Síðan er vakin athygli á því að kerfið gæti skapað hvata til offjárfestingar sveitarfélaga í leiguhúsnæði, „þar sem slíkar framkvæmdir skapa atvinnu og auka tekjur sveitarfélaga í formi útsvars og fasteignagjalda“.

Einnig mætti benda á félagslegar afleiðingar, svo sem samþjöppun leiguíbúða á vegum byggingar- og rekstraraðila vegna stærðarhagkvæmni og myndun hverfa þar sem tekjuminni einstaklingar blandast ekki við aðra tekjuhópa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.