Fjöldi leigusamninga jókst mikið á milli júlí og ágúst mánaðar eins og við er að búast á haustin. Fjölgun samninga nemur um 46% frá því í júlí. Í ágúst og september á ári hverju nær fjöldi leigusamninga iðulega hámarki í tengslum við upphaf haustannar í skólum landsins, enda sá tími þegar námsmenn flytjast búferlum til að hefja nám. Þetta kemur fram í morgunkorni Greiningar Íslandsbanka í dag.

Greining telur það þó öllu athyglisverðara að á milli ára fækkar samningum í ágúst um 13,3%. Í ágúst í fyrra voru gerðir 1.302 leigusamningar og hefur fækkað um 173 á milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 65% allra leigusamninga eru að jafnaði gerðir, er fækkunin á milli ára mun meiri eða 17,5%, en í ágúst sl. voru gerðir 616 samningar um leiguhúsnæði samanborið við 746 samninga í ágúst í fyrra.

Á þessu ári hafa samtals verið gerðir 5.936 leigusamningar og eru það 529 færri samningar en á sama tíma í fyrra. Virðist því sem leigumarkaðurinn hafi skroppið saman um 8,2% frá því í fyrra.

Samkvæmt Greiningu Íslandsbanka er það í takt við þróun síðustu missera leigumarkaðurinn hefur verið að skreppa saman eftir gríðarlega aukningu fyrst eftir hrun. Þrátt fyrir að leigumarkaðurinn sé að dragast saman er hann enn mjög stór miðað við það sem áður var, en á árunum fyrir hrun voru að jafnaði gerðir um 5.000 leigusamningar á ári hverju. Í kjölfar hrunsins tvöfaldaðist leigumarkaðurinn svo en um 10.000 leigusamningar voru gerðir árlega á tímabilinu 2009-2011.