Eftirspurn á leigumarkaði er margfalt meiri en framboð. Sé húsnæði auglýst til leigu á sanngjörnu verði er eftirspurnin 30 til 100 sinnum meiri en framboð. Þetta segir Svanur Guðmundson leigumiðlari í samtali við Morgunblaðið .

„Fólk hefur gefist upp á að fá húsnæði leigt. Leiguverðið er yfirleitt það hátt að fólk ræður ekki við það. Leigumiðlun er að leggjast af. Leigusalar finna leigjendur á Facebook og leigja þeim milliliðalaust. Leigusalar stjórna markaðnum. Margir þeirra virða hvorki uppsagnarfrest né húsaleigulög,“ segir Svanur.

Þá kemur fram í Morgunblaðinu að Jóhann Már Sigurbjörnsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, sé nýbúinn að taka íbúð á leigu. Hann hafi upplifað það þrisvar að keppa við fimmtíu aðra umsækjendur.