Nýsamþykkt lög gera almenningi nú kleift að leigt út einkabíla sína fyrir milligöngu leigumiðlunar. Hverjum er heimilt að leigja út tvo bíla. RÚV greinir frá því að leigutekjur af nýlegum litlum fólksbíl geti numið 260 þúsund krónum á mánuði. Miðlarinn tekur þó 30 prósent af því.

Sölvi Melax hjá einkaleigunni Vikingcars segir í samtali við RÚV að nýju lögin þýði að hver einstaklingur geti leigt bílinn sinn í ótakmarkaðan tíma yfir allt árið. Ef fólk leigir bílinn þegar það fer til útlanda þá er það að nýta einkabílinn betur. Hann bendir á að einkabíllinn sé notaður innan við einn klukkutíma á dag að meðaltali. Með nýrri tækni sé verið að gefa fólki tækifæri á að nýta einkabílinn betur.

Hann segir nýju lögin vera í samræmi við það sem aðrir hafi verið að óska eftir eins og skatturinn og fleiri, að vera ekki með þessa neðanjarðarstarfsemi, heldur koma þessu upp á borðið, hafa þetta löglegt, hafa þetta skýrt, þannig að þetta sé allt á hreinu og allir sáttir.