Á milli desembermánaðar og janúar hækkaði leiguverð íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu um 0,1%, en ef horft er til síðustu 12 mánaða nemur hækkunin um 9%, á sama tíma að því er fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans .

Bendir bankinn á að á sama tíma hefur kaupverð fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu hækkað minna, eða um 4,8%, sem er viðsnúningur frá þróuninni frá 2016 fram til sumarsins 2017, þegar kaupverð fór að hækka mun meira.

Það var svo aftur breyting frá timabilinu frá 2011 til 2016, þegar leiguverð og kaupverð fjölbýlis þróaðist með svipuðum hætti, en fyrir allt tímabilið frá 2011 til júní 2017 hækkaði leiguverðið um 70% meðan kaupverðið hækkaði um 97%.

Hins vegar hefur leiguverðið hækkað um 13,7% frá júní 2017 meðan kaupverðið hefur hækkað um 6,6%, svo munurinn á þessum tveimur tímabilum er töluverður.

Segja enn hagstæðara að kaupa

Í Hagsjánni er einnig rætt um hlutfallið milli leiguverðs og kaupverðs, sem sé stundum notað sem vísbending um hvort hagstæðara sé að kaupa eða leigja húsnæði. Það er hvort 12 mánaða leigukostnaður deildur upp í kaupverð sams konar íbúðar sé lægra eða hærra en talan 15, þó einnig sé sagt að ef talan sé komin upp fyrir 20 sé mun hagstæðara að leigja.

Þannig hafi þetta hlutfall verið rúmlega 13 í upphafi tímabilsins sem horft er til, frá árinu 2011, en hafi verið komið upp í 16 undir lok þess, sem gefi vísbendingu um að kaup á fasteign hafi verið hagstæð framan af, en sífellt minna þó eftir sem á leið tímabilið.

Loks skoða þeir ávöxtun af útleigu fyrir annars vegar einstaklinga og hins vegar fyrirtæki, en meðalávöxtunin hafi verið mjög svipuð, 6,8% á öllu tímabilinu fyrir einstaklinga en 6,9% hjá fyrirtækjunum.

Þegar tekið er tillit til verðbólgu sé ávöxtunin þá í kringum 4%, sem sýni að ávöxtun af útleigu húsnæðis sé síst meiri en annarri atvinnustarfsemi hér á landi. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um virðist sem umtal um okurleigu eigi því ekki við rök að styðjast, þó eitt félag hafi ákveðið að draga til baka nýtilkynnta hækkun leiguverðs eftir viðræður við VR.