Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,4% milli mánaða í október samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands að því er Íbúðalánasjóður greinir frá í fréttatilkynningu.

Árshækkun leiguverðs, samkvæmt þinglýstum leigusamningum, mælist nú 9,6% og er ofar árshækkun íbúðaverðs sem mælist 4,1% í október. Árshækkun á leiguverði hefur verið meiri en árshækkun á íbúðaverði síðastliðna 8 mánuði.

Hækkunin í október á íbúðaverði er frekar lítil í sögulegu samhengi, en meðalhækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur verið tæp 10% á ári frá upphafi árs 2012.

Hækkunin á leiguverði í október er hins vegar örlítið ofar meðalárshækkun leiguverðs sem er tæp 9% á ári.