Við erum á siglingu norður eftir í leit að kolmunna. Veiðin, þar sem við höfum verið vestur af Írlandi, var alveg dottin niður. Við bindum vonir við kvöldið og nóttina en svo þurfum við að halda til Vopnafjarðar,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK, er heimasíða HB Granda ræddi við hann  um kolmunnaveiðarnar.

Víkingur er að kolmunnaveiðum á alþjóðlegu hafsvæði vestan Bretlandseyja en skipið hafði ekki verið lengi að veiðum í yfirstandandi veiðiferð er leita þurfti vars inni á Donegal-flóa vegna óveðurs.

„Þetta byrjaði vel og við vorum komnir með 390 tonn í tveimur holum þegar við þurftum að leita vars. Veðrið var snarbilað og við áttum í mestu vandræðum þar sem við lágum við festar. Skjólið var ekki mikið og þarna voru fiskeldiskvíar úti um allt. Þetta var ekki stórt svæði og haugasjór lengst af og við vorum því fegnir þegar við komumst út aftur sl. föstudag,“ segir Albert en hann segir veiðina hafa verið fína fyrst eftir bræluna.

„Við komum strax í lóð og það var fínasta veiði. Svo fylltist allt af skipum og það er enginn smá floti á veiðisvæðinu. Það klippti einn trollið aftan úr öðrum nú í morgun og þar sem veiði var orðin lítil sem engin þá taldi ég skynsamlegast að leita norðar. Við vitum að einn bátur hefur verið að fá afla úr torfu norðar á svæðinu og hugmyndin er að leita þangað norður eftir. Annars förum við að falla á tíma og það styttist í að við förum heim til löndunar,“ segir Albert.