*

mánudagur, 28. maí 2018
Fólk 15. apríl 2017 14:44

Léku sér í snjónum

Kiflom Gebrehiwot Mesfin kom til Íslands á vegum Jarðhitaskóla Sameinuðu Þjóðanna en nú hefur hann hafið störf hjá HS Orku.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Kiflom Gebrehiwot Mesfin hefur verið ráðinn sem jarðefnafræðingur hjá HS Orku. „Ég sinni hvoru tveggja jarðefna- og jarðfræðiverkefnum, en í gegnum árin hef ég sinnt ýmsum verkefnum á sviði jarðfræði, námurannsóknum auk verkefna tengdum vatni og jarðhita og annarrar vinnu í kringum borholur,“ segir Kiflom.

Helstu verkefni hans hjá orkufyrirtækinu HS Orka eru á sviði sýnatöku og eftirlits með rannsóknum í tengslum við jarðhitaauðlindina.

„Ég kláraði meistaragráðu í jarðfræði við Háskóla Íslands, og svo hélt ég áfram í þrjú ár við Carbfix verkefnið sem er á vegum háskólans og fleiri stofnana, auk þess að taka kúrsa í jarðefnafræði.“

Kiflom kom til Íslands árið 2008, upphaflega í gegnum Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna sem Orkustofnun hýsir, en hann er með B.Sc. gráðu í jarðfræði frá Háskólanum í Addis Ababa í Eþíópíu.

„Ég er fæddur og uppalinn í Eþíópíu, en ég er upprunalega frá Erítreu,“ segir Kiflom sem var spenntur fyrir því að koma hingað til lands.

„Ísland er mjög þekkt fyrir jarðvarmavinnslu sína svo það var mjög góð tilfinning að koma hingað enda er ég mjög áhugasamur um að auka við þekkingu mína á þessu sviði og vera stöðugt að bæta sjálfan mig.“

Þó Kiflom hafi í fyrstu verið einn á ferð þegar hann kom til Íslands hefur fölskylda hans nú flutt hingað til hans og búa þau nú í Reykjanesbæ.

„Ég og konan mín eigum þrjú börn, elsta er ellefu ára, miðbarnið er átta ára og svo eigum við einn yngri strák sem verður tveggja ára núna í júní. Eins og allir foreldrar eyði ég mestum tíma utan vinnu með börnum mínum en þess utan er lestur aðaláhugamál mitt. Ég vil auka við þekkingu mína á svo mörgum sviðum.“

Kiflom er oft á ferðinni á jarðhitasvæðum landsins við sýnatöku en auk þess hefur hann hug á því að reyna að ferðast meira um landið með fjölskyldu sinni.

„Við höfum ekki náð að ferðast mikið enn sem komið er, en við höfum farið gullna hringinn, séð Gullfoss og Geysi og Þingvelli. Krakkarnir voru mjög spenntir og líkaði þeim vel að vera úti í náttúrunni og leika sér í snjónum sem var nýtt fyrir þeim hér á landi,“ segir Kiflom en hann segir viðbrigðin hafa verið nokkur þegar hann flutti hingað til lands.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.