Bjarni Stefánsson deildarstjóri hjá Vegagerðinni segir að ásamt veðurfarinu sé viðhaldskortur á vegum á höfuðborgarsvæðinu ástæða óvenju margra tjóna af holum í malbikinu að því er Morgunblaðið greinir frá.

Eins og kom fram í fréttum í gær hafa óvenjumargar tilkynningar borist um tjón þá rúmu 2 mánuði sem liðnir eru af ári, eða 95 á móti 179 allt árið í fyrra.

„Það eru náttúrlega margir vegir sem eru komnir á tíma og hafa verið sveltir í viðhaldi í gegnum tíðina, bara út af fjárskorti,“ segir Bjarni sem segir að vegahaldara ábyrga fyrir tjóni ef tilkynnt hefur verið um holuna en hún ekki löguð eða varað við henni.

„Slitlagið hefur elst og er í lélegra ástandi en hefur verið. Þessi týpa af vetri hefur einnig haft áhrif; mikið um frost og hlýju til skiptis, sem eyðileggur slitlagið.“

Sigurður Ævarsson hjá hjólbarðaverkstæði Kletts í Klettagörðum segir nóg að gera vegna ástandsins og fólk hafi verið að skemma oft glæný dekk.

„Það er mjög mikið að gera og hefur aldrei verið meira,“ segir Sigurður. „Nýrri bílar fara einhvern veginn verr út úr þessu því það er yfirleitt lægri prófíll á dekkjunum þannig að þau þola þetta síður. Þetta er heilmikið tjón hjá fólki.“