*

mánudagur, 25. mars 2019
Innlent 19. október 2018 10:36

Lengi átt von á veikingu krónunnar

Starfandi forstjóri Icelandair Group segir flugfélagið hafa talið gengi krónunnar ósjálfbært síðastliðin ár.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason tók við forstjórastarfi Icelandair tímabundið eftir afsögn Björgólfs Jóhannssonar í lok ágúst.
Haraldur Guðjónsson

Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair Group, segir félagið hafa talið gengi krónunnar ósjálfbært síðustu ár, og átt von á veikingu hennar, sem nú sé að koma fram, samkvæmt frétt mbl.is.

Hann segir áhrif veikingarinnar á rekstur flugfélagsins fyrst og fremst tvíþætt. Á meðan önnur áhrifin segi strax til sín, taki hin mun lengri tíma.

Hin fyrrnefndu séu þau að tekjur félagsins séu að mestu leyti í erlendri mynt, en kostnaðurinn fyrst og fremst í krónum. Afkoman batni því þegar í stað þegar krónutalan sem erlendu tekjurnar jafngilda hækkar vegna fallandi gengis krónunnar.

Hin síðarnefndu séu þau að Ísland verði ódýrari áfangastaður fyrir ferðamenn, og með tíð og tíma muni það leiða til aukinnar eftirspurnar eftir ferðum til landsins. Slíkar ákvarðanir séu þó vanalega teknar með dágóðum fyrirvara, og því fari áhrifanna ekki að gæta að ráði fyrr en síðar meir.