Leó Hauksson hefur verið ráðinn til GAMMA Capital Management á svið sölu og viðskiptaþróunar. Leó mun m.a. sinna samskiptum við viðskiptavini og samstarfsaðila, bæði hérlendis og erlendis og koma að þróun og eftirfylgni nýrra fjárfestingaverkefna.

GAMMA hóf starfsemi í London í fyrra og vinnur að því að efla þá starfsemi enn frekar á þessu ári. Leó mun starfa með Jónmundi Guðmarssyni sem nýlega var ráðinn framkvæmdastjóri sölu og viðskiptaþróunar hjá GAMMA.

Leó hefur starfað í 17 ár á fjármálamarkaði.  Hann starfaði hjá Arion banka og Kaupþingi á árunum 1999 til 2010, lengst af í markaðsviðskiptum. Árið 2011 starfaði Leó í markaðsviðskiptum hjá Íslandsbanka, en frá upphafi árs 2012 til síðasta hausts starfaði hann hjá Straumi fjárfestingabanka, síðast sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar.

Leó er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og lauk prófi í verðbréfaviðskiptum árið 2002. Hann á fjögur börn með konu sinni, Sif Jónsdóttur.