Hnakkaþon Háskólans í Reykjavík (HR) og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hófst í dag og er nú haldið í þriðja sinn. Í Hnakkaþoni reyna nemendur HR með sér í lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi. Að þessu sinni munu nemendur vinna að verkefni með Vísi í Grindavík, Marel og prentsmiðjunni Odda. „Úrslitin verða kynnt á laugardaginn kl. 16:00. Það er til mikils að vinna því Icelandair Group og sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi bjóða sigurliðinu á sjávarútvegssýninguna Seafood Expo North America, í Boston í mars,“ segir í fréttatilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.

Keppnin hefst í dag, fimmtudaginn 19. janúar kl. 13:00. Þá fá liðin ítarlegar upplýsingar um verkefnið og hitta sérfræðinga úr sjávarútvegsfyrirtækjum til skrafs og ráðagerða. Laugardaginn 21. janúar kl. 14-15:00 kynna liðin niðurstöður sínar og tillögur að lausnum fyrir dómnefnd. Verðlaunaafhending fyrir bestu lausnina fer fram á laugardaginn kl. 16:00.

Einvalalið sérfræðinga skipar dómnefnd Hnakkaþonsins 2017:

  • Ari Kristinn Jónsson, rektor HR
  • Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands
  • Bjarni Guðjónsson, sölustjóri sjávarútvegs hjá Odda
  • Erla Ósk Pétursdóttir, gæða- og þróunarstjóri Vísis
  • Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips
  • Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo
  • Hallur Þór Sigurðarson, aðjúnkt við viðskiptadeild HR
  • Hrefna Sigríður Briem, forstöðumaður B.Sc. náms við viðskipta- og hagfræðideild HR
  • Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri SFS
  • Pálmi Jónsson, framkvæmdastjóri Blámar

„Íslenskur sjávarútvegur er margþætt atvinnugrein sem kallar á mikla þekkingu og sérhæft starfsfólk. Meðal viðfangsefna hans eru fiskveiðar, matvælavinnsla, markaðssetning, nýsköpun og tækniþróun, flutningar, rannsóknir, umhverfismál og margt fleira. Markmið með Hnakkaþoninu er að kynna þau ótalmörgu tækifæri til nýsköpunar og fjölbreyttu störf sem íslenskur sjávarútvegur býður upp á og kalla fram nýjar og frískar hugmyndir frá nemendum HR. Þá er eitt af meginmarkmiðum Hnakkaþonsins að minna nemendur á að arðbærni og góð umgengni um náttúruna verða að fara saman ef atvinnustarfsemi á að vera sjálfbær,“ er tekið fram að lokum í tilkynningu HR.