Markaður með fasteignir í dýrari kantinum virðist vera að taka við sér í Bandaríkjunum ef marka má nýjustu fasteignirnar í þeim verðflokki sem hafa farið af söluskrám nýverið vestanhafs. Í netútgáfu bandaríska stórblaðsins The Wall Street Journal kemur fram að nýverið hafi tíu herbergja einbýlishús á eyju í Biscayne-flóa í Flórída selst fyrir 47 milljónir dala, jafnvirði 5,6 milljarða íslenskra króna. Húsið er nýbyggt og voru settar 60 milljónir á það þegar framkvæmdir voru á síðustu metrunum í fyrra.

Kaupandinn er að sögn blaðsins Rússi sem keypti húsið í gegnum félag sitt sem skráð er í Bandaríkjunum.

Þetta mun vera hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir einbýlishús á Flórída.

Blaðið segir verktakana sem byggðu húsið og seldu það að þeir hafi sett 60 milljóna dala verðmiða á það til að vekja athygli á því.

Í The Wall Street Journal segir enn fremur að líf sé að færast yfir markað með fasteignir, bæði einbýlishús og þakíbúðir, í Flórída sem kosti um og yfir 10 milljónir dala, yfir einn milljarð króna. Rifjað er upp í umfjölluninni að í mars síðastliðnum hafi Edward S. Lampert, forstjóri vogunarsjóðsins Sears Holdings Corporation, keypti hús á svipuðum slóðum og það sem áður hefur verið fjallað um fyrir 40 milljónir dala, jafnvirði 4,8 milljarða króna. Í húsinu er bíósalur sem getur sýnt þrívíðar kvikmyndir og vínkjallari sem greinir fingraför þess sem leyfi hefur til að opna hann. Með húsinu fylgir einkagolfvöllur. Ekki kemur fram í umfjöllun The Wall Street Journal hversu margar holur eru á vellinum. Á meðal nágranna Lampert er stórsöngvarinn og kvennagullið Julio Iglesias.