Íslensk bláskel og sjávargróður er lítið fyrirtæki í Stykkishólmi sem hefur sérhæft sig í ræktun bláskeljar og þaravinnslu á Breiðafirði. Fyrirtækið fagnar tíu ára afmæli á árinu og hefur lengst allra starfað óslitið við ræktun bláskeljar og safnað upp mikilli reynslu. Símon Sturluson, eigandi Íslenskrar bláskeljar ásamt Axel Ólafssyni,  segir einnig mikla möguleika í nýtingu á þara. Fyrirtækið selur talsvert magn saltaðs og þurrkaðs beltisþara til Evrópu og nýlega flutti það með flugi lifandi þara til líftæknifyrirtækis í New York.

Íslensk bláskel var stofnuð 2007 og fór bláskel frá því fyrst á markað 2010. „Við vorum lítið tækjum búnir í upphafi og viðskiptavinirnir fáir. Afhendingaröryggi á þessari vöru hafði verið lítið fram að þessu en núna er bláskelin komin til að vera á matseðli veitingahúsa,“ segir Símon.

Fyrirtækið sér veitingastöðum á Snæfellsnesi og víðar fyrir hráefni en vinsældir bláskeljar meðal ferðamanna eru miklar. Eftirspurn hefur aukist í takt við fjölgun ferðamanna og meðal heimamanna líka. Áður voru verslanir og veitingastaðir á höfuðborgarsvæðinu mikilvægir kúnnar Íslenskrar bláskeljar en nú fer um tveir þriðju af afurðinni á markað í heimabyggð.

Orðið fyrir skakkaföllum

Bláskelin er ræktuð á fimm línum og er því laus við allan sand. Hún er sett á markað þegar hún er 28 mánaða og er stærðin á fisknum þá komin yfir 50 mm.

„Það er mjög góð skilyrði í Breiðafirði til ræktunar á bláskel. Afurðin þykir mjög góð vegna hreinleika sjávarins og annarra aðstæðna. En við höfum orðið fyrir skakkaföllum eins og gengur og gerist vegna illviðra og sömuleiðis hefur æðakolla verið að gera okkur lífið leitt. Hún leitar í minnstu skelina og þykir hún lostæti. Ef við missum línur niður þá er krossfiskurinn skæð afæta. Krossfiski hefur fjölgað alveg gríðarlega á sumum svæðum og þyrfti eiginlega eitthvað að gera í því. Einnig kom í fyrsta sinn í langan tíma upp þörungaeitrun í fyrrasumar og þurftum við að þeim sökum að loka í tæpan mánuð,“ segir Símon.

Þari og sjór í flug

Unnið er við bláskelina frá mars og fram í október og starfa fimm manns við það. Yfir vetrarmánuðina er eingöngu unnið við vinnslu og pökkun á sjávargróðri. Símon segir mikil tækifæri liggja þar. Þarinn er ýmist saltaður fyrir Frakklandsmarkað og þurrkaður fyrir aðra útflutningsmarkaði. Þessar aðferðir eru notaðar til að auka geymsluþolið. Nú hefur lítið líftæknifyrirtæki í Bandaríkjunum sýnt áhuga á kaupum á lifandi þara sem það framleiðir alginöt úr fyrir stærri framleiðendur snyrtivara. 600 kílógramma sending fór þangað nýlega með flugi en á hvert kíló af þara fer einn lítri af sjó með pakkningunum. Símon segir að endakaupendurnir vilji einungis þara úr Breiðafirði vegna hreinleika sjávarins. Hann telur að þarna liggi mikil tækifæri í frekari viðskiptum og nánast óplægður akur.