Nefnd um heildarendurskoðun og framtíðarfyrirkomulag almannatrygginga skilar líklega hluta af niðurstöðum sínum til félagsmálaráðherra á næstu dögum. Morgunblaðið greinir frá málinu.

Þar kemur fram að nefndin muni leggja til viðamiklar breytingar í lífeyrismálum. Samkomulag hafi hins vegar ekki náðst um nýtt fyrirkomulag starfsgetumats sem komi í stað gildandi örorkumats. Haldinn verður lokafundur í nefndinni á morgun um önnur atriði en starfsgetumatið, sem nefndin ætlar að taka sér þrjá mánuði til að komast að niðurstöðu um samkvæmt Pétri Blöndal, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Pétur segir í samtali við Morgunblaðið að meðal niðurstaðna nefndarinnar séu áform um að ellilífeyrisaldur hækki um þrjú ár í skrefum yfir langt tímabil, eða 36 árum. „Það er til að mæta kostnaði vegna hinna kerfisbreytinganna, sem felast aðallega í því að áhrif framfærsluuppbótarinnar, sem skerðist um krónu á móti krónu í dag, verða afnumin. Það stendur til að það verði gert á fjórum árum.“