Samkomulag um hækkun lífeyrisréttinda á almenna markaðnum gæti legið fyrir í janúar eða febrúar. Stefnt er að því að iðgjöld hækki úr 12% í 15,5% á þremur árum. Þar með verður þau jöfn iðgjöldum á opinbera markaðnum. Samhliða þessu er stefnt að því að hækka lífeyrisaldurinn í skrefum úr 67 í 70.

Í áratugi hefur verið rætt um jöfnun lífeyrisréttinda á almenna og opinbera markaðnum en lítið sem ekkert hefur gerst. Starfsmenn hins opinbera hafa töluvert ríkulegri réttindi. Þannig nema lífeyrisgreiðslur þeirra að jafnaði 76% af ævitekjunum á meðan lífeyrisgreiðslur á almenna markaðnum nema 56% af tekjunum. Þar að auki geta opinberir starfsmenn farið á eftirlaun 65 ára en lífeyrisaldurinn á almenn markaðnum er 67 ár.

Þar með er ekki öll sagan sögð því opinbera lífeyriskerfið er með bakábyrgð frá hinu opinbera og ekki má skerða réttindi sjóðfélaga því þau eru bundin í lög og óháð ávöxtun og eignum sjóðanna. Á hrunárunum voru lífeyrisréttindi margra almennra lífeyrissjóða skert til þess að þeir gætu staðið undir lífeyrisgreiðslum. Þetta var ekki gert í opinberu sjóðunum, sem eru að sligast undan gríðarlega háum lífeyrisskuldbindingum.

Innbyggt óréttlæti

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að í þessu sé innbyggt óréttlæti. Segja megi að starfsfólk á almenna markaðnum, sem njóti miklu lakari lífeyrisréttinda en opinberir starfsmenn, sé ekki bara að borga iðgjöld í sinn lífeyrissjóð heldur einnig að greiða fyrir aukin lífeyrisréttindi opinbera starfsmanna með sköttum sínum. Með öðrum orðum, ef iðgjaldagreiðslur hins opinbera dekki ekki réttindin þá greiði skattborgarar mismuninn.

Undanfarnar vikur hefur komist skriður á viðræður um jöfnun lífeyrisréttinda.Í kjarasamningum aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) eru bókanir, sem kveða á um jöfnun þessara réttinda og með Salek-samkomulaginu, sem var undirritað fyrir skömmu, var ákveðið að klára þessa vinnu.

Afnema bakábyrgð hins opinbera

Í grunninn snúast viðræðurnar um að hækka iðgjaldagreiðslur á almenna markaðnum um 3,5 prósentustig. Í dag er þetta þannig að starfsmaður á almenna markaðnum greiðir 4% iðgjald til lífeyrissjóðs af öllum launum og atvinnurekandi með sama hætti 8%. Samtals nema greiðslurnar því 12%. Á opinbera markaðnum greiða starfsmenn 4% en hið opinbera 11,5%. Samtals nema greiðslurnar 15,5%, sem er 3,5 prósentustigum meira en á almenna markaðnum.

Til þess að bæði kerfin séu jafnsett þarf samt ekki bara að hækka iðgjaldagreiðslur í almenna kerfinu heldur einnig að afnema bakábyrgðina hjá hinu opinbera og hækka lífeyrisaldurinn til jafns við almenna kerfið.

Upphaflega stóð til að jafna réttindin á sjö árum. „Mér sýnist að þetta muni gerast á styttri tíma, jafnvel í lok ársins 2018," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Þorsteinn tekur undir með Gylfa. Hann segir að enginn stór ágreiningur sé um lífeyrismálin. Samkomulag ætti að geta legið fyrir í janúar eða febrúar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .