Afar óheppilegt er að Alþingi skuli hafa ákveðið að fjárfesting í fyrirtækjum á First North sé óskráð eign í bókum lífeyrissjóðanna, segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, í aðsendri grein í Fréttablaðinu. First North markaðurinn er markaður í Kauphöllinni sem sinnir litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem ekki eru skráð á Aðalmarkað.

Páll segir í greininni að þetta fyrirkomulag með First North markaðinn setji lífeyrissjóðum skorður varðandi fjárfestingar í þessum fyrirtækjum. „Lífeyrissjóðirnir eru gríðarlega mikilvægir fjárfestar á verðbréfamarkaði. Eignarhlutdeild þeirra í skráðum fyrirtækjum er um þriðjungur og hærri ef óbeint eignarhald er talið með. Þessi flokkun í bókum lífeyrissjóða er órökrétt þar sem fjárfestar njóta í meginatriðum sömu verndar á First North og á Aðalmarkaði,“ segir Páll í greininni. Hann bendir á að til að mynda gildi bæði innherja- og markaðsmisnotkunarákvæði verðbréfaviðskiptalaga um þennan markað til jafns við Aðalmarkaðinn, en sú sé ekki raunin á svipuðum mörkuðum í flestum öðrum Evrópulöndum.

„Auknar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga á mörkuðum á borð við First North yrði án nokkurs vafa mikil lyftistöng fyrir lítil og meðalstór íslensk fyrirtæki. Aukin þátttaka lífeyrissjóðanna myndi jafnframt laða aðra fjárfesta að markaðnum. Þannig yrði First North betur í stakk búinn til að styðja við vöxt íslensks atvinnulífs og bætt lífskjör,“ segir Páll Harðarson.