Lífeyriskerfið er öflugt og heldur áfram að stækka í efnahagslegu tilliti. Raunvirði hreinna eigna hefur aldrei verið hærra og tryggingafræðileg staða sjóða án bakábyrgðar hins opinbera hefur batnað undanfarin ár. Þrátt fyrir að útlit sé fyrir að raun­ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða hafi að jafnaði verið sáralítil í fyrra, einkum sökum mikillar styrkingar krónunnar, má gera ráð fyrir því að góð afkoma sjóð­anna undanfarin fimm ár mildi þá þróun.

Losun fjármagnshafta á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði er gríðarlega mikilvægt skref fyrir lífeyrissjóðina, sem geta nú fjárfest iðgjöldum erlendis án takmarkana. Með tíð og tíma getur það stuðlað að því að erlendar fjárfestingar sjóðanna aukist og alþjóðleg áhættudreifing í eignasöfnum þeirra verði meiri en verið hefur undanfarin átta ár – og að sjóðasöfnunarkerfið skili hlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Óvissa með gengisþróun krónunnar, góðar efnahagshorfur innanlands og óeðlilegt ástand á erlendum eignamörkuðum gerir það þó að verkum að lífeyrissjóðirnir muni fara hægt í að byggja upp erlendar eignir á næstu árum.

Kerfið stækkar enn

Heildareignir íslenska lífeyriskerfisins námu um 3.514 millj­örðum króna um síðustu áramót samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands. Það svarar til 145,1% af vergri landsframleiðslu (VLF) síðasta árs og um þriðjungs alls fjármálakerfisins. Eignir samtryggingadeilda voru 3.175 milljarðar og eignir séreignadeilda 339,4 milljarðar.

Til samanburðar námu heildareignir lífeyriskerfisins 3.284 milljörðum árið 2015 og um 148% af VLF, og jukust eignir lífeyriskerfisins því um 7% milli ára. Stór hluti aukningarinnar kemur til vegna 117 milljarða króna framlags ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) í desember. Þá nam hrein eign til greiðslu lífeyris 3.509 milljörðum króna í fyrra. Að teknu tilliti til verð­ lagsþróunar hefur hún aldrei verið hærri.

Sé litið til eignasamsetningar lífeyrissjóðanna árið 2016 minnkaði vægi erlendra eigna, þrátt fyrir veruleg kaup sjóðanna á bæði innlendum og erlendum eignum. Innlendar eignir voru rúmlega 2.750 milljarðar í desemberlok og jukust um tæplega 8% milli ára, en erlendar eignir voru rúmlega 764,3 milljarðar og jukust um 4%. Aukningin í innlendum eignum er helst tilkomin vegna aukningar í innlendum útlánum og skuldabréfaeign, en aukningin í erlendum eignum var í kaupum á hlutdeildarskírteinum í erlendum sjóðum.

Hlutabréfaeign sjóðanna minnkar úr 17% í 14,7% milli ára og hefur hlutur erlendra hlutabréfa lækkað umtalsvert undanfarin tvö ár. Skuldabréfaeign, þá nær einvörð­ungu innlend markaðsskuldabréf og víxlar, myndar um 55% af heildareignum sjóðanna. Erlend innlán og hlutdeildarskírteini í blönduðum erlendum sjóðum jukust, en á móti minnkaði vægi þessara eignaflokka innanlands í eignasöfnum lífeyrissjóðanna.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins, Lífeyrir & tryggingar . Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .