Sturlaug Haraldsson hefði sennilega ekki órað fyrir því þegar hann sem gutti fylgdist með loðnubátunum sigla drekkhlaðna inn til hafnar á Akranesi að hann ætti eftir að setjast í stól framkvæmdastjóra hjá einu af stærstu sjávarútvegsfyrirtækum heims,  rússneska fyrirtækinu Norebo.  Með Sturlaug og samstarfsmenn hans innanborðs, þá Kristján Hjaltason og Magnús Gústafsson,  hefur Norebo haslað sér völl sem stærsti framleiðandi á sjófrystum þorsk- og ýsuflökum í heiminum.

Sturlaugur heldur tvö heimili,  í London og á Akranesi þar sem hann býr með eiginkonu sinni Þórunni Önnu Baldursdóttur skurðhjúkrunarfræðingi og börnum þeirra fimm.   Blaðamaður settist niður að spjalli með Sturlaugi á heimili þeirra á Akranesi.

„Æskan var bryggjan og fótboltinn.   7 ára gamall var ég farinn að þvælast fyrir þegar verið að var að landa úr skipunum.   Ég talaði mikið við karlana og níu ára gamall fór ég alltaf seinni partinn niður á bryggju til að fylgjast með vertíðarbátunum koma inn.   Ég var forvitinn um aflabrögðin og fannst gaman að spjalla við skipstjórana.  Ég eyddi líka miklum tíma niðri í síldarsöltun þar sem ég hjálpaði til við að blanda kryddið í tunnurnar.   Ég fékk þessa bakteríu snemma enda var pabbi duglegur að taka mig með sér í göngu um fyrirtækið, í heimsóknir til afurðakaupenda eða skipasmíðastöðva.   Á þessum tíma var HB ennþá fjölskyldufyrirtæki.   Ég heillaðist sérstaklega að loðnuskipunum,  þá sérstaklega þegar rétt sást í brúna þegar þeir komu drekkhlaðnir að landi. Ég sá vart fegurri sjón.   Þetta þótti mér spennandi og á þessum árum var draumurinn að verða loðnuskipstjóri,“  segir Sturlaugur.

Hann kynntist aldrei langafa sínum Haraldi Böðvarssyni,  sem byggði upp mikið sjávarútvegsveldi á Akranesi í byrjun síðustu aldar sem kennt var við hann.  Þeir voru hins vegar nánir hann og afi hans Sturlaugur H. Böðvarsson sem þótti mjög nýjungagjarn og framsækinn.  Hann var t.d. sá fyrsti í heiminum sem lét setja hliðarskrúfu í fiskiskip,  Höfrung III árið 1964.

14 ára byrjaði Sturlaugur að vinna í frystihúsinu og í framhaldinu fékk hann vinnu við að mála skipin og fasteignirnar.   Leiðin lá seinna inn á skrifstofuna en kvöldin voru frátekin fyrir fótboltaæfingar með ÍA.

Á sjó

Að loknu stúdentsprófi fór Sturlaugur til sjós í fyrsta sinn og var part úr vetri á frystitogaranum Höfrungi III og á loðnuveiðum á Víkingi AK.  Þar rættist gamli draumurinn.   Á þessum árum gerði Haraldur Böðvarsson hf.  út einn frystitogara, tvo ísfisktogara og tvö uppsjávarskip.   Þarna var því mikil útgerð og Akranes með stærri útgerðarstöðum á landinu.   Áður en HB sameinaðist Granda árið 2004 var það reyndar annað stærsta útgerðarfélag landsins.   Sturlaugur ólst því upp í hringiðu sjávarútvegsins og lét um leið til sín taka á knattspyrnusviðinu.   Hann státar af hvorki fleiri né færri en sex Íslandsmeistaratitlum og þremur bikarmeistaratitlum.  Lið Skagamanna var gríðarlega sterkt á tíunda áratugnum. Í liðinu voru svo dæmi séu nefnd tvíburarnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir,  Ólafur Þórðarson,  Sigurður Jónsson og margar fleiri nafntogaðar kempur.

„Ég var svo heppinn að alast upp með strákum sem voru frábærir knattspyrnumenn.   Við spiluðum fótbolta nánast alla daga ýmist heima á túni eða á hinu fræga Merkurtúni,  þar sem margir af þekktustu fótboltamönnum landsins hafa slitið barnskónum.   Á æskuárunum fylgdumst við grannt með sigursælu liði Skagamanna og á túnunum reyndum við að leika eftir snilli manna eins og Kalla Þórðar,  Péturs Péturssonar og Sigga Jóns.   Ég var í mjög sterkum árgangi og þegar við komum upp í meistaraflokk voru þar fyrir mjög öflugir leikmenn.   Úr þessari blöndu varð síðan eitt sterkasta lið sem Skagamenn hafa átt.“

Upp úr tvítugu hélt Sturlaugur norður til Akureyrar og lagði stund á sjávarútvegsfræði við háskólann þar.   Svo var flogið eða keyrt suður í leiki síðsumars með ÍA og U-21 árs landsliðinu sem hann lék líka með.   Þetta var 1994 og sjávarútvegurinn var vinsæl atvinnugrein á meðal upprennandi manna og kvenna.   Metaðsókn var þetta ár í sjávarútvegsfræðina á Akureyri.   Sturlaugur segir þetta hafa verið skemmtilegan tíma og að hann hafi þarna kynnst mörgum sem hafi látið að sér kveða í greininni.   Það blundaði alltaf í Sturlaugi að mennta sig frekar og nokkrum árum seinna ákvað hann að skella sér í MBA nám við Háskólann í Manchester sem hann stundaði samhliða vinnu.   Þaðan útskrifaðist hann árið 2009.

Sölustjóri hjá Haraldi Böðvarssyni

Útskrifaður sem sjávarútvegsfræðingur 1998 hóf Sturlaugur störf sem sölustjóri fyrir flakafrystitogarana hjá Haraldi Böðvarssyni hf.  Þeir voru þá tveir og voru flökin seld um víða veröld, þó sýnu mest til Bretlands, Bandaríkjanna og á Japan.   Þarna hefjast fyrst afskipti hans af sölumálum á sjófrystum afurðum sem hann hefur síðan sérhæft sig í nánast allan sinn starfsferil.

„Þegar ég var yngri hafði ég mikinn áhuga fyrir útgerð og skipum og það var eiginlega fyrir tilviljun að ég fór að sinna sölumálum á sjófrystum afurðum.   Ég hafði mjög gaman af því alveg frá upphafi.   Á þessum tíma þegar ég er að byrja þá er að verða mikil breyting á íslensku sölusamtökunum.  Ég var dálítið róttækur og við fórum að selja mikið sjálfir framhjá sölusamtökunum og það var ekki alltaf vel séð.“

En það voru enn frekari breytingar framundan.   Rétt fyrir 2002 sameinaðist Haraldur Böðvarsson sjávarútvegsarmi Eimskipafélagsins sem þá hét Brim.  Burðarás,  fjárfestingarfélag Eimskips, hafði áður yfirtekið Útgerðarfélag Akureyringa og Skagstrending.  Saman mynduðu þessi félög sjávarútvegsfyrirtækið Brim.

Boyd Line

Fljótlega upp úr þessu keypti Brim útgerðarfyrirtækið Boyd Line í Bretlandi,  fjölskyldufyrirtæki sem gerði út tvo frystitogara frá Hull til veiða á þorski og ýsu í Barentshafi.   Það varð úr að Sturlaugur var ráðinn framkvæmdastjóri Boyd Line.   Hann fluttist til Hull í lok árs 2002,. Hann hafði þá stuttu áður lagt fótboltaskóna á hilluna 28 ára gamall.   Þetta var gamalgróið útgerðarfélag sem var upp á sitt besta þegar Bretar veiddu hvað mest á Íslandsmiðum.   Á velmektardögunum gerði félagið út 25 togara en það fór mjög illa út úr breytingunum þegar landhelgi Íslands var færð út í 200 mílurnar á Íslandi.   Sturlaugur sá strax við komuna til Bretlands að kvóti fyrirtækisins sem var rétt um 5.000 tonn,  dygði fyrir eitt skip en ekki tvö. Fljótlega var því tekin ákvörðun um að selja annað skipið.

„Mér var vel tekið í Hull.   Ég var ungur maður þarna og flestir sem voru að vinna hjá mér helmingi eldri en ég.   Fyrirtækið var dálítið bólgið miðað við umsvifin þannig að ég þurfti að grípa til uppsagna fljótlega eftir komu mína en heimamenn sýndu þessu skilning.   Afurðirnar voru sjófryst flök sem fóru að langmestu leyti inn á fish & chips markaðinn í Bretlandi.“

Brim klofið í sundur

Ágætur rekstur var á öllum fyrirtækjum Brims. Um þetta leyti hafði Landsbankinn verið einkavæddur. Eitt fyrsta verk einkavædda bankans var að taka yfir Eimskipafélagið. Í framhaldinu var Brim fyrirtækjasamstæðan brotin upp.  Sjávarútvegsfyrirtækin voru boðin upp af Landsbankanum og seld eitt af öðru hæstbjóðanda. Grandi keypti HB, Samherji keypti Boyd Line í samstarfi við hollenska fyrirtækið Parlevliet, Guðmundur Kristjánsson keypti ÚA og FISK á Sauðárkróki keypti Skagstrending.

Sturlaugur var því enn og aftur kominn í nýja stöðu. Hann hætti hjá Boyd Line og réði sig sem sölustjóra hjá HB Granda sem gerði þá út fimm frystitogara.  Sturlaugur bjó engu að síður áfram í Englandi enda nær markaðnum þar og Bretlandsmarkaður mjög mikilvægur HB Granda á þessum tíma. Hjá fyrirtækinu starfaði hann í tæp fjögur ár en þá verður aftur óvænt vending á starfsferlinum.

„Mér bauðst að fara til Kaupþings. Mér fannst dálítið spennandi að kynnast fjármálageiranum enda mikið að gerast á þessum tíma. Ég byrjaði hjá Kaupþingi rétt fyrir toppinn í „góðærinu“ og var síðan hjá fyrirtækinu í gegnum hrunið í gjaldeyris- og afleiðumiðlun. Þetta var mikill skóli og ég sé ekki eftir þessum tíma þótt þetta hafi verið langt frá því að vera skemmtilegt öllum stundum.   Aðdragandi fjármálahrunsins var mjög krefjandi tími sem reyndi á taugarnar og sálartetrið,“ segir Sturlaugur.

Ocean Trawlers

Sjávarútvegurinn togaði samt alltaf í Skagamanninn. Upp úr hruni fékk Sturlaugur símtal frá London. Á hinum endanum var Magnus Roth, sem þá var annar eigenda rússneska útgerðarfélagsins Ocean Trawlers sem seinna varð Norebo.  Magnus bauð Sturlaugi að taka við sölumálum félagsins í Bretlandi og að sjá um framleiðslustjórnun á flakafrystitogurum félagsins.  Magnús Gústafsson, fyrrum forstjóri Coldwater í Bandaríkjunum, sem sinnti ráðgjafastörfum fyrir Ocean Trawlers, hafði bent stjórnendum fyrirtækisins á Sturlaug.  Þetta var í byrjun árs 2009. Á þessum tíma hafði orðið mikið hrun á þorskmörkuðum. Ocean Trawlers hafði verið mjög atkvæðamikið í heilfrystingu á þorski en lítið sinnt flakamarkaðnum. Fyrirtækið ákvað að venda kvæði sínu í kross og metnaðarfullar áætlanir voru lagðar fram um stóraukna flakaframleiðslu. Það hafði verið stærsti framleiðandi á þorski í heiminum og vaxið mjög hratt með kaupum á útgerðum og kvóta í Rússlandi. Á þessum tíma var þorskafli Ocean Trawlers á milli 60-70 þúsund tonn upp úr sjó. Ekki leið langur tími áður en aflinn var kominn vel yfir 100 þúsund tonn. Þeir seldu einnig fyrir önnur útgerðarfyrirtæki og voru að höndla með í heildina 170-180 þúsund tonn af þorski upp úr sjó þegar mest var.   Stóri heilfrysti fiskurinn fór til Portúgal og Noregs til söltunar á meðan smái og meðalstóri fiskurinn var seldur til Kína til frekari vinnslu.  Þaðan fóru tvífryst flök aftur á markaði í Evrópu og Bandaríkjunum.

„Einu ári áður en ég kem til Ocean Trawlers hafði verð á heilfrystum þorski farið mjög hátt upp, meðal annars vegna samdráttar í veiðum. Verðið fór það hátt að eftirspurnin hrundi og þar með verðið. Í kjölfarið varð fjármálakrísa í heiminum sem hjálpaði ekki upp á sakirnar.   Lánsfé var af mjög skornum skammti sem gerði kaupendum erfiðara fyrir að fjármagna birgðir.   Ocean Trawlers ákvað að snúa blaðinu við og hella sér af krafti út í meiri flakavinnslu úti á sjó og komast þannig nær endanlegum kaupanda með vöruna.   Það er í raun umhugsunarvert að verðið var í raun lægst á þeim tíma þegar magnið var hvað minnst.“

Óvissuferð

Þetta aukna magn af flökum þurfti að selja og þar kemur Sturlaugur við sögu. Fyrirtækið hafði verið að selja einu ári áður en Sturlaugur bættist í hópinn um 4 þúsund tonn af flökum.

“Við þurftum að láta hendur standa fram úr ermum og vinna þetta hratt.   Fyrstu árin tóku á enda var mjög hröð kvótaaukning í Barentshafi á þessum tíma.   Á fjögurra ára tímabili frá 2009 til 2013 hafði þorskkvótinn í Barentshafi tvöfaldast úr 500.000 tonnum í milljón tonn.   Á þessum sömu fjórum árum náðum við að auka flakasöluna upp í 30.000 tonn.   Mest fórum við síðan upp í 37.000 tonn af þorsk- og ýsuflökum árið 2017.”   Verðmætaaukningin var í takt við þetta.

„Við náðum að stækka markaðinn og verðið hækkaði ár frá ári á afurðunum.  Við fengum smá skell í verðunum þegar kvótinn jókst óvænt um 33% árið 2013 en annars hefur verið góður stígandi í þeim í gegnum þetta tímabil.   Við byggðum upp Evrópumarkað og Bandaríkjamarkað og fórum inn á markaðshluta þar sem sjófryst flök höfðu ekki verið áður. Þetta kostaði blóð, svita, tár og talsverða þolinmæði.  Við vorum í ýmis konar tilraunastarfsemi þarna í upphafi til að opna nýjar dyr. Við hófum t.d. að framleiða sjófrysta þorskhnakka og flakabita sem gafst vel.   Við urðum á þessum tíma hreinlega að velta fyrir okkur öllum hugsanlegum möguleikum því að við vorum með svo mikið magn af fiski í höndunum og markaðurinn einfaldlega ekki til staðar.   Við vorum í raun í óvissuferð sem stundum reyndi á taugarnar en allt blessaðist þetta með tímanum.”

Sturlaugur vann að þessu í góðu samstarfi við Magnús Gústafsson sem sá um Ameríkumarkað og fljótlega eftir að hann byrjaði hjá Ocean Trawlers bættist Kristján Hjaltason í hópinn sem tók að sér sölu á meginlandi Evrópu.  Það var því íslenskt, þriggja manna teymi sem opnaði verðmæta markaði fyrir fryst flök frá Ocean Trawlers í Evrópu og Bandaríkjunum.

,,Það hefur verið frábært að vinna með Magnúsi og Kristjáni.   Þeir eru báðir með áratuga reynslu úr iðnaðinum,  miklir fagmenn.  Ég er búinn að læra mikið af þeim báðum. ”

Magnús hefur nýlega snúið til annarra starfa. Hann er nú stjórnarformaður HB Granda en Sturlaugur og Kristján starfa enn saman hjá Norebo.

600.000 tonna kvóti

Ocean Trawlers var í eigu tveggja manna, Svíans Magnus Roth og Rússans Vitaly Orlov. Fyrir þremur árum keypti Orlov Roth út og um leið breyttist nafn fyrirtækisins í Norebo.

Fyrir ári síðan var Sturlaugi síðan boðið að taka við sem framkvæmdastjóri Norebo Europe sem er söluarmur Norebo samstæðunnar í Evrópu og Bandaríkjunum. Á árinu 2018, fyrsta ári Sturlaugs sem framkvæmdastjóri Norebo Europe, var velta fyrirtækisins um 50 milljarðar króna umreiknað yfir í íslenskar krónur.

Norebo á sem stendur 45 skip. Það hefur nýlega samið við Knarr samsteypuna íslensku um hönnun og búnað í 10 ný skip. Íslensk fyrirtæki og Íslendingar koma því sterkt við sögu hjá þessu risavaxna sjávarútvegsfyrirtæki. Kvóti fyrirtækisins er tæp 600 þúsund tonn, þar af um 90 þúsund tonn af þorski en Norebo selur auk þess þorsk frá þriðja aðila, 19 þúsund tonn af ýsu, 180 þúsund tonn af alaskaufsa og fyrirtækið er einnig sterkt í grálúðu, karfa og í uppsjávartegundum eins og síld, loðnu, makríl, kolmunna, hrossamakríl, sardínellu og fleiri tegundum. Norebo er auk þess að hasla sér völl í rækjuveiðum og keypti nýlega til þeirra veiða Brimnesið frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur og Ilivileq (áður Skálaberg) sem var áður í eigu Brims og Arctic Prime Fisheries. Um þessar mundir standa yfir ólympískar rækjuveiðar og Norebo ætlar ekki að láta sitt eftir liggja til að afla sér veiðireynslu og gerir út þrjú skip á þessar veiðar.

„Það er mikill metnaður í sjávarútvegi í Rússlandi. Fjárfestingar eru miklar. Pútín Rússlandsforseti ákvað að taka til hliðar 20% af kvótanum sem er ætlaður þeim sem eru tilbúnir að fjárfesta í nýjum skipum og verksmiðjum. Mörg fyrirtæki hafa stokkið til og það er mikil og hröð þróun í gangi. Norebo hefur ákveðið að láta smíða 10 ný flakaskip, þar af sex sem verða við veiðar í Barentshafi og 4 í alaskaufsa. Það er gaman að því að skipin byggja á íslenskri hönnun og búnaði frá Knarr-samsteypunni.  Skaginn hf. kom líka að hönnun fullkominnar flakaverksmiðju í Murmansk sem Norebo tók í notkun fyrir tveimur árum,“ segir Sturlaugur.

Nóg pláss fyrir alla

Hann segir fish‘chips markaðinn í Bretlandi gríðarlega mikilvægan fyrir Norebo og líklega mikilvægasta markaðinn þegar kemur að sjófrystum þorski og ýsu.

„Þessi markaður er mjög sterkur ennþá. Hann óx á síðasta ári en sumir óttast að einhverjir fish‘chips staðir loki á næstu mánuðum . Sumir þeirra eru aðþrengdir vegna hækkandi kostnaðar úr öllum áttum. Kartöflur og fiskur hefur hækkað mikið í verði. En á móti kemur að það eru nýir veitingastaðir að opna. Það er áætlað að 5-10% fish‘chips staða loki á þessu ári, einhverjir nýir opni og eitthvað af þessum viðskiptum færist yfir á aðra veitingastaði.   Góðu fréttirnar eru þó þær að þessir staðir eru almennt að verða betri,  standardinn er að hækka sem er gott fyrir iðnaðinn í heild“.

Hann segir áhrifin af Brexit birtast helst í mikilli lækkun pundsins sem hefur leitt til talsverðrar hækkunar fiskverðs í pundum. Þetta komi við kaunin á mörgum. Brexit hefur engin áhrif á markaðsaðgengi Norebo inn á breska markaðinn en gæti haft áhrif á markaðsaðgengi annarra evrópskra fyrirtækja.

„Ég hef velt því fyrir mér hvort ég nálgist það að geta talist vera landráðamaður þegar ég stýri fyrirtæki í samkeppni við íslensk fyrirtæki, íslenska taugin í manni er römm,“ segir Sturlaugur meira í gríni en alvöru.  „En niðurstaðan er eiginlega sú að á þessum markaði verður alltaf meiri eftirspurn en framboð af gæðavöru eins og þorskinum. Svo lengi sem við skilum góðri vöru til viðskiptavina, gætum að afhendingaröryggi og góðri þjónustu verður eftirspurnin alltaf meiri en framboðið. Þessi mikla söluaukning sem við höfum náð á sjófrystum afurðum sýnir það best.  Ég lít þannig á að við höfum ekki verið að taka af neinum heldur höfum við stækkað markaðinn öllum til hagsbóta.   Það er nóg pláss fyrir alla og markaðurinn langt frá því að vera mettur.“