Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði hafa nú verið undirritaðir. Því ber að fagna enda eru kjarasamningar og niðurstaða þeirra langmikilvægasta efnahagslega ákvörðun þjóðarinnar hverju sinni. Áður en samningarnir voru undirritaðir var búið að gefa þeim nafnið „lífskjarasamningar". Takturinn var svipaður þegar merkustu kjarasamningar síðustu áratuga voru undirritaðir árið 1990 en þeir voru strax kenndir við þjóðarsátt og æ síðan hafa þeir aldrei kallaðir annað en þjóðarsáttarsamningarnir.

Þjóðarsáttarsamningarnir árið 1990 mörkuðu þáttaskil í íslensku samfélagi. Í einföldu máli má segja að með þeim hafi samkomulag náðst um að róa öllum árum að því að auka hér kaupmátt eftir verðbólgubál níunda áratugarins, þar sem laun voru sífellt hækkuð umfram framleiðniaukningu.

Í aðdraganda núverandi kjarasamninga hefur þjóðin, sem betur fer, ekki verið að kljást við verðbólgudrauginn. Vandamálin eru annars eðlis. Þó áhersla verkalýðsforystunnar hafi frá upphafi verið á hækkun lægstu launa þá var alltaf ljóst að hinn mikilvægi undirliggjandi þáttur samninganna snéri að húsnæðismálum. Þetta hefur komið æ betur í ljós síðustu daga og kristallast síðan í aðkomu ríkisins að samningunum núna, þar sem fjölmörg atriði snúa að húsnæðismarkaðnum. Fyrst og síðast á að auðvelda ungu fólki og tekjulágu að eignast þak yfir höfuðið.

Samið hefur verið um verulega hækkun lægstu launa en á samningstímanum, sem er frá 1. apríl 2019 til 1. nóvember 2022, munu mánaðarlaunin hækka um 90 þúsund krónur. Skerðingarmörk bóta verða hækkuð og fæðingarorlof lengt, svo eitthvað sé nefnt.

Þróun kjaraviðræðna á almenna markaðnum hefur verið nokkuð sérstök. Samtök atvinnulífsins birti sínar samningsáherslur þann 1. október og upp úr miðjum mánuðinum birtu verkalýðsfélögin kröfugerðir sínar. Eftir einungis sjö fundi með SA vísuðu Efling, VR og VLFA sínum málum til ríkissáttasemjara. Þetta gerðist þann 21. desember eða tíu dögum áður en gildandi kjarasamningar runnu út. Er fáheyrt að kjarasamningum sé vísað til sáttasemjara áður gildandi samningar losna.

Orðræða róttækustu verkalýðsforingjanna síðustu misseri var þannig að það átti ekki að koma neinum á óvart að hér yrðu verkföll. Með upphrópunum voru forystumennirnir í raun búnir að lofa skjólstæðingum sínum átökum. Sem betur fer sáu menn að sér áður en í óefni var komið. Það var merkilegt að hlusta á formann Verkalýðsfélags Akraness lýsa því í útvarpsviðtali á miðvikudaginn að eftir fall Wow hefði staðan verið orðin það þröng að menn yrðu að ná saman. Eins dauði er annars brauð. Kannski sá formaðurinn sig nauðbeygðan til að leita í þetta skálkaskjól, svona til réttlætingar fyrir sínum umbjóðendum.

Þó þessum áfanga kjaraviðræðnanna sé nú lokið þá er bara hálfur sigur unninn. Samningar á opinbera markaðnum eru eftir. Sem dæmi þá losnuðu samningar Bandalags háskólamanna (BHM) í síðasta mánuði. Hefur Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, gefið það út að  niðurstaða samninga á almenna markaðnum muni "að sjálfsögðu" hafa áhrif á aðra vinnumarkaði og skírskotar þá til opinbera markaðarins. Þróist kjaraviðræðurnar í takt við það sem formaður BHM lýsir munu lífskjarasamningarnir ekki standa undir nafni heldur mun hið sígilda höfrungahlaup á íslenskum vinnumarkaði hefjast. Sögulega hafa miklar launahækkanir upp allan stigann leitt til þess að kaupmáttur hefur aukist í skamman tíma en síðan hefur farið að síga á ógæfuhliðina

Til upprifjunar má geta þess að þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru undirritaður í janúar stóð Bandalag háskólamanna fyrir utan, því samið hafði verið við það árið á undan. Það þurfti bráðabirgðalög til að taka þá samninga tilbaka , sem var mjög harkaleg aðgerð en metin nauðsynlegt af stjórnvöldum því hagsmunirnir voru slíkir.

Eins og fyrr var sagt þá hefur verðbólgan ekki verið að plaga okkur síðustu ár. Þrátt fyrir það megum við ekki gleyma henni því óskynsamlegir kjarasamningar, þar sem launahækkun er umfram framleiðsluaukningu, vekur þann vonda draug. Þess vegna er alltaf skynsamlegast að horfa á kaupmáttinn.

Tíminn mun leiða í ljós hvort lífskjarasamningarnir feli í sér jafnmikla grundvallarbreytingu á íslensku samfélagi og þjóðarsáttarsamningarnir.