Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og nefndarmaður í peningastefnunefnd seðlabankans, segir í nýútkominni skýrslu sem skrifuð er að beiðni forsætisráðuneytisins, að líkja megi launahækkunum í næstu kjarasamningum við nýtingu endurnýtanlegra náttúruauðlinda.

Í skýrslunni segir að séu laun hækkuð mikið, og verðlag ferðamannaþjónustu í kjölfarið, rétt eins og ef veiði er aukin í sjávarútvegi, aukist tekjur til skamms tíma, en í kjölfarið skreppi stofninn saman: fiskstofninn í tilfelli útgerðar, og ferðamannafjöldinn í tilfelli ferðaþjónustu. Til langs tíma dragist því tekjur saman.

Þannig megi líta á orðspor landsins sem ferðamannastaðar sem auðlind sem hægt sé að ofnýta með of háu verðlagi.

„Ef mikil almenn launahækkun yrði á næstu mánuðum og misserum sem skerti samkeppnisstöðu ferðaþjónustu svo mikið að erlendum ferðamönnum tæki að fækka mætti líkja því við ofveiði fiskistofna, t.d. lokum síldarævintýrisins. Þá væri verið að gera út á orðspor og vinsældir landsins sem ferðamannastaðar og afla tekna til skamms tíma en fórna um leið tekjum og velferð í framtíðinni.“

Þá er bent á að hlutdeild launa í þjóðartekjum sé hærri nú en árið 2015. Þannig megi færa rök fyrir því að svigrúm til launahækkana sé minna.