Fundur Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, og Vladimirs Pútín, forseta Rússlands, hefur vakið ansi hörð viðbrögð. Á fundinum gerði Trump lítið úr meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016, og rannsókn sérstaks saksóknara sem skipaður var vegna málsins í kjölfarið.

„Rannsóknin er stórslys fyrir landið okkar. Hún hefur valdið okkur sundrungu. Það var alls engin samvinna [milli kosningateymis Trump og Rússneskra yfirvalda]. Það vita það allir.“ Sagði Trump, aðeins nokkrum dögum eftir að 12 rússneskir ríkisborgarar voru formlega ákærðir fyrir tölvuárásir á Demókrataflokkinn.

Trump hefur meðal annars verið gagnrýndur af þingmönnum beggja flokka, en líklega er óhætt að segja að fáir hafi kveðið fastara að orði en Jill Wine-Banks, fyrrum saksóknari í Watergate-málinu. Eins og kunnugt er neyddist Richard Nixon, fyrstur bandaríkjaforseta, til að segja af sér árið 1974 vegna Watergate-málsins, en margir hafa líkt Rússlandsmálinu gegn Trump við Watergate.

Wine-Banks líkti framkomu Trump á fundinum með Pútín við árás Japanska heimsveldisins á bandarísku sjóherstöðina við Pearl harbor 1941, árásir á gyðinga í hinni svokölluðu Kristalsnótt, Kúbudeiluna, sem endaði næstum því með kjarnorkustyrjöld, og hryðjuerkaárásunum á bandaríkin 11. september 2001.