„Miðað við myndarlegan viðskiptaafgang, batnandi viðskiptakjör, viðsnúning í gjaldeyrisjöfnuði bankanna og þá staðreynd að Seðlabankinn virðist einn af fáum aðilum á markaði sem leggst gegn gjaldeyrisinnflæði er líklegt að krónan styrkist enn frekar þegar líður á árið,“ segir í ítarlegri greiningu Arion banka þar sem farið er yfir styrkingu krónunnar og framtíðarhorfur.

Þar er tilgreint að nafngengi íslensku krónunnar hafi styrkst hratt að undanförnu, en styrking gengisvísitölunnar nam nálega 9 prósentustigum í febrúar. „Skýringin liggur að miklu leyti í myndarlegum viðskiptaafgangi en hann nam um 8% af vergri landsframleiðslu í fyrra samkvæmt nýjum tölum Seðlabankans,“ segir einnig.

Einnig er bent á að hin hliðin á viðskiptajöfnuðinum er fjármagnsjöfnuðurinn og er því alltaf gjaldeyrisútflæði sem vegur á móti gjaldeyrisinnflæði hverju sinni.

„Staðreyndin er hins vegar sú að gjaldeyrisinngrip Seðlabankans hafa nánast einokað fjármagnsjöfnuðinn undanfarin misseri. Það er merki um að fáir aðrir en Seðlabankinn leggist gegn gjaldeyrisinnflæðinu. En hversu lengi getur Seðlabankinn beitt gjaldeyrisinngripum og stýft þau af með góðu móti? Þegar litið er á efnahagsreikning Seðlabankans kemur í ljós að bankinn getur einungis að takmörkuðu leyti beitt eignasölu til að stýfa af frekari gjaldeyriskaup og er þá lítið eitt eftir nema að stækka efnahagsreikning Seðlabankans.

Val Seðlabankans er því annað hvort að auka bundin innlán, eða auka skuldir sínar með öðru móti, og stækka efnahagsreikninginn eða draga úr gjaldeyrisinngripum. Ef myndarlegur viðskiptaafgangur verður í ár og Seðlabankinn kýs að draga úr gjaldeyrisinngripum má leiða líkum að frekari styrkingu krónunnar. Að okkar mati væri ákjósanlegra að stíga frekari skref í losun fjármagnshafta og grípa mögulega til annarra aðgerða sem auka gjaldeyrisútflæði og tempra þannig styrkingu krónunnar. Þar má nefna heimildir til gjaldeyrisvarna sem eru til þess fallnar að draga úr hættu á hröðu út- eða innstreymi,“ er tekið fram í greiningunni.