Stjórnmálamenn og fjárfestar á Wall Street eru á einu máli um nauðsyn þess að Seðlabanki Bandaríkjanna hefji vaxtalækkunarferli sitt í næstu viku - aðeins er deilt um hversu hratt eigi að ráðast í slíkar lækkanir. Hlutabréfavísitölur lækkuðu um allan heim í gær og á hádegi að bandarískum tíma hafði gengi hlutabréfa á Wall Street lækkað um tæplega hálft prósent.

Sú óvissa sem ríkt hefur hjá fjárfestum á Wall Street um hvort Seðlabanki Bandaríkjanna ráðist í stýrivaxtalækkun næsta mánudag er ekki lengur fyrir hendi. Eftir að í ljós kom á föstudaginn að störfum í ágústmánuði hafði fækkað um fjögur þúsund er spurningin nú fremur hversu mikil stýrivaxtalækkunin verður þann 18. september næstkomandi. Flestir hagfræðingar gera ráð fyrir því að stjórn seðlabankans muni lækka vexti um 25 punkta í tvígang á næstu tveimur fundum bankans - en sumir spá jafnvel þremur vaxtalækkunum í röð. Og á Wall Street eru fjárfestar opinberlega farnir að ræða um allsherjarsamdrátt í bandaríska hagkerfinu. Hingað til hafa þeir með öllu móti viljað forðast að nota orðið "samdrátt" til að lýsa ástandinu á fjármálamörkuðum.

Tölur bandaríska vinnumálaráðuneytisins komu flestum greiningaraðilum algjörlega í opna skjöldu: Í stað þess að störfum fjölgaði um hundrað þúsund - líkt og sérfræðingar höfðu spáð fyrir um - þá fækkaði þeim í fyrsta skipti í fjögur ár á milli mánaða. Bandarískar hlutabréfavísitölur féllu skarpt í kjölfarið og Bandaríkjadalur veiktist sökum væntinga um stýrivaxtalækkanir og samdráttar í hagkerfinu.

En það var ekki einvörðungu samdráttur á vinnumarkaði í ágústmánuði sem jók á svartsýni fjárfesta; endurskoðaðar tölur fyrir síðastliðna þrjá mánuði leiddu í ljós að ástandið á vinnumarkaði hefur farið smám saman versnandi í sumar. Að meðaltali sköpuðust aðeins 44 þúsund störf á mánuði yfir tímabilið, sem er töluvert minna heldur en nauðsynlegt er til að vega upp á móti þeim fjölda manna sem er sagt upp störfum í hverjum mánuði.

Metur líkur á samdrætti 25%
Sumir fjármálaskýrendur telja að þær fjölmörgu neikvæðu fréttir sem berast af efnahagsástandinu vestanhafs varpi ljósi á þá staðreynd að Seðlabanki Bandaríkjanna hafi ekki fylgt þróuninni nægjanlega vel eftir: Hættan um þessar mundir er því sú að þrátt fyrir vaxtalækkun í næstu viku þá sé ástandið orðið það slæmt að slík aðgerð mun ekki duga til að koma í veg fyrir samdrátt í hagkerfinu. Í minnisblaði sem James OSullivan, hagfræðingur hjá UBS fjárfestingarbankanum, sendi til viðskiptavina bankans á föstudaginn, segist hann sérstaklega hafa áhyggjur af þeirri keðjuverkun sem víðtæk svartsýni fjárfesta og neytenda gæti haft fyrir bandaríska hagkerfið. "Dregið gæti verulega úr neyslugleði bandarísks almennings sem aftur myndi stuðla að auknu atvinnuleysi," segir Sullivan.

Slík þróun er hins vegar alls ekki óumflýjanleg að mati Sullivan og bendir hann á fjármálakreppuna árið 1998 máli sínu til stuðnings: Þá hafi bjartsýni á meðal viðskiptalífsins tekið kipp upp á við í kjölfar þess að Seðlabanki Bandaríkjanna hóf vaxtalækkunarferli sitt.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.