Sáttafundur í deilu sjómanna og útgerðarmanna hófst í húsnæði ríkissáttasemjara núna klukkan 14:00 en viðmælendur Morgunblaðsins eru sammála um að líkur séu á að samkomulag takist í kjaradeilunni í dag.

Sjómenn hafa verið í verkfalli frá því í desember eftir að hafa fagnað fyrra samkomulagi, en þeir sendu útgerðarmönnum það sem þeir kalla lokatilboð á mánudag sem Samtök fyrirtækja í Sjávarútvegi svöruðu í gær.

Höfnuðu sjómenn tilboði útgerðarinnar en ítrekuðu að tilboð sitt stæði enn, en samninganefnd sjómanna kom saman til fundar í húsnæði Ríkissáttasemjara fyrir hádegið í dag til innbyrðis fundar.

Samkvæmt heimildum RÚV snúast tilboðin um útfærslu á ágreiningi á milli deiluaðila um þátt sjómanna í olíukostnaði skipa.

„Sjómenn hafa metið hvað breyting á þætti sjómanna í olíukostnaði skilaði þeim í peningum og tilboð þeirra hafa verið aðrar útfærslur á því - þannig að sami ávinningur fáist, en með öðrum formerkjum, til dæmis með greiðslu í upphafi samnings," segir í fréttinni.

Síðasti fundur var haldinn 9. febrúar síðastliðinn en talið er að yfirvofandi loðnuvertíð auki þrýsting á deiluaðila um að ná samkomulagi, en samkvæmt frétt Landhelgisgæslunnar eru norsk skip mætt til loðnuveiða í íslenskri landhelgi, en engin íslensk skip eru á veiðum.

Norðmenn mega hins vegar veiða um 70% heildarkvótans, eða rúm 40 þúsund af 67 þúsund tonnum samkvæmt fréttinni.