Bankakerfi Evrópu er of skuldsett og viðkvæmt fyrir áföllum. Aðstæður á fjármálamörkuðunum svipar orðið mjög til þess sem var í Bandaríkjunum í  aðdraganda hrunsins árið 2008. Þetta segir Sheila Bair, pistlahöfundur bandaríska tímaritsins Fortune. Hún segir líkur hafa aukist á bankaáhlaupi innan aðildarríkja Evrópusambandsins.

Sheila Bair
Sheila Bair

Hún segir málið sérstaklega erfitt að horfa upp á nú þar sem leiðtogar Evrópusambandsríkjanna hafi ekki komið sér saman um það hvernig eigi að koma í veg fyrir að eigendur innlána í evrópskum bönkum beri skarðan hlut frá borði fari einn banki eða fleiri á hliðina.

Bair, sem er fyrrverandi stjórnarformaður bandaríska innstæðutryggingasjóðsins (FDIC), segir í pistli sínum ekkert eiginlegt bankaáhlaup hafa átt sér stað í Evrópu að ráði. Yfirvöld á meginlandinu verði að vera tilbúin til að takast á við slíkt þegar þar að komi enda erfitt að standast áhlaupið.

Bair bendir engu að síður á að Mario Draghi, bankastjóri evrópska seðlabankans, og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hafi í skugga skuldakreppunar á evrusvæðinu nýverið mælt fyrir stofnun nýs innstæðutryggingarsjóðs  í svipuðum anda og er í Bandaríkjunum. Samkvæmt því sem Bair lýsir munu bankar aðildarríkja ESB fjármagna sjóðinn auk þess sem hann hafi heimild til að sækja sér fé í björgunarsjóð evruríkjanna. Þá mun sjóðurinn eins og hann er teiknaður upp hafa vald til að taka yfir ógjaldfæra banka og stokkað upp rekstur þeirra með einum eða öðrum hætti. Gangi þetta eftir munu afskriftir lenda á herðum hluthafa og lánardrottna en ekki innstæðueigenda.